Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 18. maí 2022 11:07
Elvar Geir Magnússon
Sá sem skallaði Sharp hefur verið handtekinn
Mynd: Getty Images
Lögreglan í Nottinghamskíri hefur handtekið manninn sem skallaði Billy Sharp, leikmann Sheffield United, harkalega eftir undanúrslitaleik í Championship-umspilinu í gær.

Nottingham Forest vann Sheffield United í vítaspyrnukeppni og eftir leikinn óðu fjölmargir áhorfendur út á völlinn til að fagna.

31 árs karlmaður réðist á Sharp, sem er fyrrum leikmaður Forest, svo hann steinlá í grasinu. Maðurinn hefur verið handtekinn og verður yfirheyrður.

Nottingham Forest hefur gefið út að maðurinn verði dæmdur í ævilangt bann frá leikjum félagsins.

Sharp sjálfur hefur tjáð sig um málið og skrifaði á Twitter að einn fávíti hafi í hugsunarleysi eyðilagt ótrúlegt fótboltakvöld. Hann óskaði Nottingham Forest til hamingju með sigurinn og að einn skíthæll muni ekki eyðileggja virðinguna sem hann ber fyrir félaginu.

Nottingham Forest mun leika gegn Huddersfield á Wembley sunnudaginn 29. maí í úrslitaleik um hvort liðið fer upp í úrvalsdeildina.


Athugasemdir
banner
banner