mið 18. nóvember 2020 14:01
Elvar Geir Magnússon
„Kári er algjör skylmingarþræll"
Icelandair
Kári Árnason.
Kári Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Kári er algjör skylmingarþræll," segir Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari, við Valtý Björn Valtýsson í þættinum Mín skoðun.

Kári Árnason er orðinn 38 ára og leikur væntanlega sinn síðasta landsleik gegn Englandi í kvöld. Hann hefur átt magnaðan landsliðsferil og hægara sagt en gert að fylla hans skarð.

„Það er leitun af þessum baráttujöxlum eins og honum. Það sem er best í þessu er að hann hefur alltaf verið tilbúinn að setja hausinn á sér í hættuna og leitt með fordæmi. Bæði þegar hann kemur sér í varnarstöðuna þegar hann hendir sér í hættuna hvar og hvenær sem er og hefur svo sjálfur skorað og lagt upp og verið sterkur póstur í föstum leikatriðum," segir Guðjón.

„Hann er karakter sem getur tapað leikjum en er ekki sigraður. Það er eitthvað sem þarf að líta til eins og á aðra þætti."

„Það er ekki sjálfgefið að menn á þessum aldri séu valdir í landsliðið. Kári hefur átt það frábæran feril að hann getur sett punktinn yfir i-ið í þessum leik í kvöld."

Það eru breytingar framundan hjá íslenska landsliðinu en Erik Hamren lætur af störfum eftir leik í kvöld og þá verða ákveðin kynslóðaskipti.

„Það er mikilvægt að smíða nýja liðsheild en það fer enginn inn í landsliðið nema hann sýni að hann sé þess verðugur. Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn færir en það þarf líka að velja sterka karaktera til að takast á við þetta. Við eigum ekki haug af mönnum en eigum nokkra efnilega sem geta stigið inn í þetta," segir Guðjón.

„Ég kvíði ekki framtíðinni í íslenska boltanum. Það er spennandi fyrir þá sem taka við liðinu að takast á við þessa áskorun. Það er mikill efniviður fyrir framan þá og í bland eru reyndir menn áfram. Það eru ekkert allir að hverfa þó breytingar séu framundan."
Athugasemdir
banner