Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   sun 19. janúar 2025 08:30
Hafliði Breiðfjörð
Balde segist hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leiknum í gær
Alejandro Balde.
Alejandro Balde.
Mynd: EPA
Hansi Flick.
Hansi Flick.
Mynd: EPA
Alejandro Balde varnarmaður Barcelona segir að hann hafi orðið fyrir kynþáttaníði að hálfu stuðningsmanna Getafe þegar liðin gerðu 1 - 1 jafntefli í spænsku deildinni í gærkvöldi.

Balde sem er svartur á hörund segir að atvikin hafi átt sér stað í fyrri hálfleik leiksins og að hann hafi látið Pablo Gonzales Fuertes dómara vita af þeim.

„Ég lenti í nokkrum atvikum af kynþáttaníði," sagði bakvörðurinn eftir leikinn.

„Það er ömurlegt að svona haldi áfram að gerast. Ég lét dómarann vita af því sem gerðist í fyrri hálfleiknum. Hann greip til verklagsreglna deildarinnar í seinni hálfleik en ég veit samt ekki alveg hvernig það virkar hérna."

Samkvæmt handbók deildarinnar má dómarinn stöðva leikinn ef hann verður var við kynþáttaníð eða ef leikmaður tilkynnir honum um slíkt. Tilkynning var lesin í hátalarakerfi vallarins þar sem látið var vita að leikur yrði stöðvaður og leikmenn gengju af velli ef slík atvik héldu áfram að raungerast.

Í skýrslu dómara stóð: „Á meðan ég var inni á vellinum eftir að hafa flautað til hálfleiks kom leikmaður númer 3 í gestaliðinu til aðstoðarmanns míns og lét vita af kynþáttaníði sem var beint gegn honum. Þegar ég kom inn í klefana lét ég fulltrúa beggja liða vita af atvikinu sem og öryggisgæslu á vellinum og bað þau að setja í gang verklagsreglur gegn kynþáttaníði áður en seinni hálfleikur færi í gang."

Hansi Flick stjóri Barcelona tjáði sig um atvikið og sagði: „Það er ekkert pláss fyrir þetta í fótbolta eða lífinu almennt. Þetta er ótrúlegt, þetta er svo rangt. Þeir verða að vera eftir heima, og fara ekki á leiki. Við verðum að berjast gegn þeim. Líka fólkið sem er í kringum þá, þau geta líka gert eitthvað. Svona viljum við ekki lifa saman."
Athugasemdir
banner