Gæti leikið sem miðvörður
Landsliðsmaðurinn Bjarni Ólafur Eiríksson er kominn aftur í Val en hann hefur undanfarin ár leikið með Stabæk í Noregi. En af hverju Valur?
„Það er að stærstum hluta til af því að ég hef alltaf verið í Val og tengist félaginu og Hlíðarenda sterkum böndum. Eftir að hafa rætt við Magga og stjórnina þá leist mér vel á þetta," sagði Bjarni.
„Ég hafði einhverja möguleika erlendis en þeir voru að mínu mati ekki nægilega spennandi til að halda áfram að vera úti. Ég er mjög sáttur við þessa niðurstöðu. Ég sá það ekki alveg fyrir mér gerast að ég færi í eitthvað annað félag hér heima,"
„Undanfarin ár hafa verið miklar mannabreytingar og þjálfaraskipti hjá Val en þannig er það bara. Ég hlakka til að byrja að mæta á æfingar."
Það eru ekki margir leikmenn eftir úr leikmannahópi Vals síðan Bjarni Ólafur var þarna síðast.
„Ég held að þeir séu tveir og það segir ansi mikið þegar ég var bara þrjú ár úti," sagði Bjarni sem gæti leikið sem miðvörður en er þekktari sem vinstri bakvörður.
„Maggi ræddi lauslega við mig hvort ég væri til að spila hafsent. Mér er í raun alveg sama. Ég er vonandi klár í slaginn sama hvar það verður."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir





















