Aron Bjarnason leikmaður Breiðabliks var með báðar stoðsendingar Blika í kvöld þegar þeir unnu KA menn 2-1 á Kópavogsvelli.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 KA
„Mjög gott að klára þetta, bara erfiður leikur. Þeir eru bara með mjög fínt lið þannig að við tökum þessum þrem stigum."
Breiðablik var mikið með boltan og oft að komast í góðar stöður. KA menn vörðust hinsvegar vel og þrátt fyrir góð færi gekk erfiðlega fyrir Blika að skora.
„Þeir voru bara að komast vel fyrir skotin hjá okkur, það vantaði kannski að búa til færi úr góðum stöðum sem við vorum að skapa. Mér fannst við byrja leikinn mjög vel en svo dettum við aðeins niður. Svo ná þeir marki snemma þarna í seinni og þá þurftum við að sækja markið."
Með þessum úrslitum er Breiðablik aðeins einu stigi frá topp sætinu og því gríðarlega mikilvægt að hafa unnið hér í kvöld.
„Það er mjög mikilvægt að vinna þessa leiki, það er alveg klárt mál. Sérstaklega þegar liðin sem eru í kringum okkur eru alltaf á deginum á undan. Þá þurfum við að passa upp á að vinna leikina það er klárt mál."
Dregið var í undankeppni Sambandsdeildarinnar í vikunni og ljóst er að Breiðablik mætir GFK Tikves frá Norður-Makedóníu.
„Það er bara mjög spennandi. Ég hef ekki farið í mörg Evrópu verkefni þannig að ég er bara mjög spenntur fyrir þessu. Maður veit svo sem lítið um þessi lið þannig að það verður bara mjög gaman og krefjandi."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.