Zubimendi til Real frekar en Arsenal? - Bundesliga leikmenn á blaði Man Utd - Alvarez ekki til sölu
   fim 20. mars 2025 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ég er að fá fullt af mínútum í einu besta liði landsins"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Víkingur
Mynd: Víkingur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjónsson hefur skrifað undir nýjan samning við Víking og er nú samningsbundinn út tímabilið 2028. Víkingur tilkynnti um undirritunina í gær.

Helgi er sóknarmaður sem leysti stöðu vinstri vængbakvarðar í umspilsleikjunum gegn Panathinaikos í síðasta mánuði. Hann er á leið í sitt sjötta tímabil með Víkingi og ræddi við Fótbolta.net um að ákvörðun sína að framlengja samninginn.

„Tilfinningin er bara virkilega góð og ég er mjög ánægður að þetta sé komið. Ég get ekki beðið eftir að tímabilið fari af stað," segir Helgi.

Framundan hjá Víkingi er úrslitaleikurinn í Bose-mótinu og svo hefst alvaran, Besta deildin. Helgi segist ekki hafa þurft að hugsa sig lengi um áður en hann skrifaði undir.

„Nei, ég myndi ekki segja það, ég er að fá fullt af mínútum í einu besta liði landsins svo að ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um."

Finnst þér mikilvægt að samningurinn sé langur, ekki bara eitt ár í viðbót?

„Já, mig langar að vera áfram í Víkinni og halda áfram að vinna titla, þess vegna skrifaði ég undir þrjú ár í viðbót."

Gæti farið aftur í Fram og dreymir um tækifæri erlendis
Framarar sýndu Helga áhuga í glugganum síðasta sumar og reyndi svo aftur í vetur að kaupa hann frá Víkingi. Helgi kom frá Fram eftir að hafa spilað með Fram í upphafi ferilsins. Varstu spenntur fyrir Fram?

„Mér þykir mjög vænt um að gamla félagið mitt sýni mér mikinn áhuga og ber ég sterkar taugar til þeirra. Á þessum tímapunkti á ferlinum var ég ekki að hugsa um breytingar hér innanlands þar sem mér hefur gengið vel hjá Víkingi og þar sem það eru mjög spennandi tímar framundan í Víkinni."

Sérðu fyrir þér að spila aftur með Fram á ferlinum?

„Já, ég sé alveg fyrir mér að ég gæti farið einn daginn aftur í Fram en eins og staðan er í dag þá fannst mér það ekki vera rétta skrefið fyrir mig."

Þú talar um breytingar innanlands, ertu með lúmskan draum að spila erlendis áður en ferlinum lýkur?

„Maður veit aldrei, maður hefur séð eldri leikmenn en mann sjálfan fara erlendis. Þannig ef að það kæmi eitthvað spennandi þá myndi maður klárlega skoða það."

Stefnt á báða titla og annað Evrópuævintýri
Hvernig var að taka þátt í Evrópuævintýrinu í vetur?

„Það var ótrúlega gaman að fá að upplifa það að spila á svona stóru sviði á frábærum völlum. Svo var mjög skemmtilegt að sjá hvar við stöndum á móti liði eins og Panathinaikos."

Er mikið hungur að reyna gera það aftur og á sama tíma vinna aftur titlana sem unnust 2023?

„Já, að sjálfsögðu, við erum með það öflugan hóp að markmiðið okkar er klárlega að reyna að vinna báða titlana og komast aftur inn í Evrópukeppni og fara ennþá lengra þar," segir Helgi.
Athugasemdir
banner
banner
banner