
Orri Steinn Óskarsson leiðir íslenska landsliðið í fyrsta sinn sem fyrirliði þegar liðið mætir Kósovó í Pristina í kvöld. Orri, sem er tvítugur, var gerður að nýjum fyrirliða fyrir rúmri viku síðan.
Aron Einar Gunnarsson er ekki lengur með bandið en hann er þó í hópnum fyrir leikina gegn Kósovó, Orri segir það hjálpa sér mikið að hafa Aron með.
Aron Einar Gunnarsson er ekki lengur með bandið en hann er þó í hópnum fyrir leikina gegn Kósovó, Orri segir það hjálpa sér mikið að hafa Aron með.
„Aron er auðvitað búinn að vera mikil fyrirmynd okkar frá því að við vorum ungir drengir. Það er frábært fyrir mig að hafa hann innanborðs, hann getur hjálpað mér og það væri verra ef hann væri ekki hérna. Hann veit hvað þetta snýst allt um og getur hjálpað mér í þessu nýja hlutverki," sagði Orri við Fótbolta.net í vikunni.
Aron Einar hefur stutt þá ákvörðun að gera Orra að fyrirliða.
„Ég var alveg hlynntur þessari ákvörðun frá byrjun. Ég er á svæðinu til að miðla af minni reynslu og mér finnst það góð þróun. Alveg sama hvað Orri er gamall, hann er jarðbundinn strákur sem á framtíðina fyrir sér sem fyrirliði Íslands. Ég held að hann eigi eftir að standa sig fáránlega vel í því," sagði Aron við Fótbolta.net í vikunni.
Leikur Kósovó og Íslands verður klukkan 19:45 í kvöld.
Athugasemdir