Agnar Bragi Magnússon skrifar
Hvað er ofþjálfun? Ofþjálfun er líkamlegt ástand sem á sér stað þegar magn og álag æfinga einstaklings fer umfram þeirra “recovery capacity” sem þýðir að líkaminn nær ekki þeirri endurheimt sem hann þarf á að halda. Það er hætta á framförum í sinni íþrótt og miklar líkur eru á því að þú byrjir að missa styrk . Ofþjálfun er algengt vandamál hjá þeim sem að stunda lyftingar, en það getur einnig komið fram hjá hlaupurum og öðrum íþróttamönnum. Samkvæmt skilgreiningu eru ofþjálfaðir íþróttamenn ekki að framkvæma á “venjulegi stigi” eða “venjulegu leveli” Hins vegar í flestum tilfellum eru engin skýr lífeðlisfræðileg skýring á slakri frammistöðu. Ofþjálfaðir íþróttamenn virðast yfirleitt vera meira eða minna eðlilegir ef tekið er mið af lífeðlisfræðilegum þáttum í tengslum við árangur (t.d. glycogen stigum, laktat stigum og VO2max sem er eitt helsta mælitæki í sterkustu deildum heims í knattspyrnu).
Ofþjálfun er nýtískuhugtak og var varla til fyrir 15-20 árum síðan. Flestir hugsa þegar þeir heyra orðið “Ofþjálfun” um eitthvern kraftlyftingagæja sem er á leiðinni í ræktina í þrettánda skiptið í vikunni svo dæmi sé tekið. Þetta hugtak er í dag nefnilega orðið mjög algengt á öllum sviðum íþróttar. Þeir sem að vilja ná hámarksárangri í sinni íþrótt og skara framúr, þurfa að æfa meiri en hinir en stundum fara menn framúr sér og enda síðan á því að þurfa draga sig úr sinni íþrótt í eitthvern óákveðinn tíma.
Ég er einn þeirra sem hef þurft að draga sig úr íþrótt sinni vegna ofþjálfunar og oftar en einu sinni. Þegar ég lít til baka þá hlýt ég að hugsa að það sé eitthvað sem ég var að gera væri vitlaust. Þegar ég var yngri og var að ganga upp alla mína yngri flokka þá voru alls kyns smá meiðsli að plaga mig og ég skyldi aldrei neitt í því. Ég var einungis 15 ára þegar ég fór fyrst í sjúkraþjálfun og þangað hef ég leitað, nánast á hverju ári síðan þá. Þegar ég var 16 ára komst ég fyrst í snertingu við “ræktina”. Maður var c.a.186 cm og 74 kg og ég þráði að bæta á mig vöðvamassa. Ég hafði samt ekki hugmynd um það hvernig ég ætlaði að gera það. Það sem hrjáði mig var þekkingarleysi á því sem ég var að gera en mér tókst á rúmum þremur árum að þyngja mig 12 kg enda var statt og stöðugt verið að ýja því að mér að ég þyrfti að þyngja mig ef ég ætlaði að eiga eitthvað erindi í efstu deild og hvað þá að komast í atvinnumennsku. Ég var á þessum tíma mikið í unglingalandsliðunum. Æfði og spilaði með U-17 og U-19 og það var mikil hvatning fyrir mig en á þessum árum, eins og áður sagði, voru alltaf eitthver smá meiðsli að hrjá mig og ég var að stækka mjög hratt. Það var ekki fyrr en ég var orðinn tvítugur að ég ákvað að fara í göngugreiningu. Það var eitthvað sem mér hafði ekki dottið í hug áður. Þá kom í ljós að það er 14 mm munur á hægri og vinstri löpp, sem að útskýrir vel þetta ójafnvægi í líkamanum og þar af leiðandi var ekkert skrítið að ég hafi verið að meiðast á ótrúlegustu stöðum. Síðan þá, þá hef ég ekki misst af leik af sökum slíkra meiðsla. Á þessum árum þegar ég var hvað viðkvæmastur fyrir, stækkaði ég hratt og var allur skakkur fyrir, þá æfði ég of mikið og vitlaust í kjölfarið. En mistök eru til að læra af þeim.
Þrátt fyrir að ég hafi komist yfir “smámeiðsla” drauginn þá tók næsta við. Ég var búinn að vera laus við slíkt í nokkur ár og bætt mig töluvert sem leikmaður enda fékk ég góða reynslu á Selfossi þar sem ég fór með liðinu upp um tvær deildir á þremur árum. Byrjun árs 2011 byrjaði ég í lyftingarprógrammi hjá manni sem að mér ber ekki að nefna á nafn hér en það átti svo sannarlega eftir að breyta mínum knattspyrnuferli. Það var hins vegar ekki fyrir mig. Hvernig þarf 88 kg varnarbuff á kraflyftingum að halda? Að setja 20-25 leikmenn undir sama hatt og á sama “prógram” er eitthvað sem mér finnst ekki rétt. Ég er nú þannig að þegar eitthvað er lagt fyrir mig þá geri ég það 100% eða sleppi því en í þetta skiptið bar kappið mig ofurliði. Ég var búinn að vera í þessu “prógrammi” í um það bil 3 mánuði og þá eftir eina æfinguna fékk ég gífurlegan verk í vinstra hnéð. Morguninn eftir gat ég varla gengið.
Í kjölfarið af þessu þá tókum nokkrir mánuðir af sjúkraþjálfun, teygjum, styrktaræfingum og ísböðum svo eitthvað sé nefnt. Það skilaði engu og þá var ákveðið að hjóla í aðgerð um miðjan maí og mótið byrjað. Ég var samt ekkert að stressa mig á því þar sem að ég vissi innst inni að þetta væri eitthvað mjög alvarlegt og sumarið þannig séð búið hjá mér. Miklar brjóskskemmdir var niðurstaðan og var ég frá í 3 mánuði í viðbót. Ég hafði komist inn í skóla í Bandaríkjunum það haustið, þannig það var hvatning fyrir mig að koma mér í stand fyrir það verkefni. Endurhæfingin gekk vel og ég var tilbúinn í þetta nýja ævintýri þó svo ég rynni frekar blint í sjóinn. Ég var meiðslalaus í ár og spilaði ég þrjátíu leiki í einu besta liði bandaríska háskólaboltans. Vorið 2012 þurfti ég að koma mér í topp form fyrir átökin um sumarið. Markmiðið var að koma mér í besta form lífs míns og reyna að brjóta mér leið inn í Selfoss liðið þó svo ég hafi ekki verið viðriðinn liðið síðan Logi þáverandi þjálfari hafði tekið við. Ég kom heim og stuttu seinna meiddist ég aftur. Ég hugsaði hvort að það væri bölvun á mér að spila á Íslandi því ég hafði ekki spilað mótsleik hér síðan 2010. Það var ekki að hjálpa mér að hann þekkti mig ekki, var meiddur og fór ég snemma til að klára meistaranámið mitt í USA.
Síðan lá leiðin aftur til Bandaríkjanna. Árið undan höfðum við unnið deildina og tapað í úrslitaleiknum yfir allt landið. Kúltúrinn þarna úti er alveg magnaður og allt öðruvísi en hérna heima. Allt mikla stærra og mikið gert úr öllu og umfjöllunin var mikil eftir slíka velgengni. Ég var mjög heppinn með lið og staðsetningu og það að fá skólastyrk og spila knattspyrnu á sama tíma eru mikil forréttindi og eitthvað sem ég mæli með fyrir alla unga knattspyrnumenn á Íslandi. Það eru 300 skólar yfir allt landið sem að taka þátt í þessu móti og við komumst tvisvar í úrslit og unnum seinna árið (2012). Þetta var draumi líkast og maður vissi eiginlega ekkert hvert leið manns lá eftir þetta. Þó svo að ég hafi spilað allt seinna tímabilið (20 leiki) meiddur og á verkjalyfjum þá voru scoutar að fylgjast með manni og öðrum liðsfélögum mínum frá MLS. Samt var maður ekkert að hugsa mikið um það því litlir möguleikar fyrir erlenda leikmenn að komast inn í MLS því lið mega einungis fá til sín ákveðin fjölda erlenda leikmanna inn í hóp sinn og margir þeirra eru leikmenn sem hafa betri ferilskrá en ég viðurkenni að þessi áhugi gladdi mig og hvatti mig áfram.
Eftir að hafa spilað yfir fimmtíu leiki þrátt fyrir krónísk hnémeiðsli ákvað ég að segja þetta gott og hlúa að mínum meiðslum og láta reyna á enn eina aðgerðina. Hún gekk vel sem og endurhæfingin. Næsta skref var að koma sér í leikform fyrir sumarið (2013) og rúmum sex vikum eftir aðgerð ákveð ég að það væri kominn tími á bolta. Ég var sannfærður um á þeim tímapunkti að ég væri ekki að fara fram úr mér enda fór ég eftir læknisráði og fann enga verki í hnénu. Fjórum vikum seinna fékk ég bakslag í meiðslin og enn í dag er ég að elta skuggann minn. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég nái mér af þessum meiðslum. Margir knattspyrnumenn hafa lagt skónna á hilluna eftir slík meiðsli og það er ekki beint skemmtileg staðreynd. Þegar ég horfi yfir farinn veg, tveimur aðgerðum, einni sprautu og hundruðum klukkutíma í ræktinni, lít ég til baka og vildi ég óska þess að ég hefði gert hlutina öðruvísi og talað við menn sem að vissu betur.
Ég elska fótbolta og allt sem tengist honum. Þetta er mín ástríða og eitthvað sem ég hef ekki verið án síðan ég var 5 ára gamall. Tilhugsunin um að hætta á hátindi ferils síns er óneitanlega mjög vond en ég trúi að ég komi sterkari til baka. Ef ekki á þessu ári þá á næsta. Ég vil hins vegar hvetja íþróttafólk til að hlusta á líkamann sinn þegar hann biður um hvíld. Tímasetning er allt í íþróttum og mestu skiptir er að vera þolinmóður þegar illa gengur. Þá er líka mikilvægt að læra af reynslu annarra og þeim sem hafa lent illa í því áður, því þú átt bara einn líkama.
Virðingarfyllst,
Meiðslapésinn, viðskiptafræðingurinn, leikskólakennarinn og knattspyrnumaðurinn
Agnar Bragi Magnússon.
Athugasemdir