Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland, átti stórleik er meistaraliðið gerði 1-1 jafntefli við AGF í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær.
Landsliðsmarkvörðurinn varði urmul af færum AGF í fyrri hálfleiknum og þar á meðal vítaspyrnu frá Patrick Mortensen er Midtjylland var marki undir.
Elías eyddi síðustu leiktíð á láni hjá portúgalska liðinu Mafra og mætti síðan aftur til Danmerkur sem aðalmarkvörður Midtjylland.
„Það var frábært að snúa aftur, þó þetta hafi ekki verið okkar besti leikur þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við vorum alls ekki góðir. En það er geggjað að vera kominn aftur hingað. Ég er fullur tilhlökkunar fyrir þessu tímabili og erum við spenntir fyrir komandi leikjum
„Við fengum allt of mörg færi á okkur í fyrri hálfleik. Þetta er eitthvað sem við þurfum að forðast, en í seinni hálfleik komumst við betur í gang, vorum nær mönnum og mun grimmari.“
„Það var geggjað. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu og við þurfum bara að horfa fram veginn. Það er hluti af vinnunni minni að spila svona, vera rólegur í markinu og einhver sem fólk getur reitt sig á þegar þörf er á. Þetta verður að halda svona áfram.“
Elías undirbjó sig vel fyrir leikinn og hafði farið vel yfir vítaspyrnur Mortensen.
„Ég hef séð myndbönd af Patrick Mortensen, eitthvað sem allir markverðir myndu gera og ég hafði bara tilfinningu fyrir því að hann myndi skjóta til hægri og þess vegna skutlaði ég mér þangað. Það gekk upp, sem var geggjað,“ sagði Elías við heimasíðu Midtjylland.
Athugasemdir