
FH og Stjarnan mættust á Kaplakrikavelli í dag í 17. umferð Bestu deildar kvenna. Stjarnan hafði betur með einu marki gegn engu en það var Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir sem skoraði eina mark leiksins.
„Þetta var helvítis bras en þetta tókst að lokum", sagði Ingibjörg strax eftir leik.
„Við vorum búin að leggja þetta vel upp fannst mér og við reyndum að fylgja plani og það gekk svona allavega framan af, þangað til í lokin þá var þetta smá bras en við höfðum þetta af."
Lestu um leikinn: FH 0 - 1 Stjarnan
FH-ingar pressuðu hátt og gáfu Stjörnunni lítinn tíma með boltann en þeim tókst þá að leysa vel úr því.
„Við höfum séð þær spila í sumar og þær hafa verið flottar í sinni pressu og það er ekkert auðvelt að mæta þeim. Þannig við lögðum upp með okkar plan og það gekk bara nokkuð vel."
Ingibjörg skoraði markið sem skildi liðin að á 28. mínútu leiksins með góðu skoti upp í þaknetið.
„Þetta var bara, ég sá bara markið og skaut. Ég er ekkert oft í þessum færum sko þannig ég ákvað bara að nýta þetta núna."
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan. Þar ræðir Ingibjörg meðal annars stöðuna í deildinni og úrslitakeppnina sem er framundan.