„Að sjálsögðu er svekkjandi að halda ekki hreinu enda alltaf svekkjandi að fá á sig mark. Það svíður ennþá meira vegna þess að við vorum svo nálægt því að gera eitthvað sem maður hefði tekið með sér í gröfina. Ég hefði verið gömul amma að segja barnabörnunum frá því þegar ég hélt hreinu heila undankeppni," sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins, eftir 2-1 tað gegn Skotum í kvöld en mörkin í leiknum voru þau fyrstu sem Guðbjörg fékk á sig í undankeppninni.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 2 Skotland
„Þetta mark lá í loftinu svo það er ekki eins og það hafi verið sjokk þegar það kom. Við vorm bara heppnar að þær skoruðu ekki fleiri."
Íslenska liðið var ólíkt sjálfu sér í leiknum í kvöld. "Ég er sammála því. Sérstaklega í byrjun þegar við vorum að gera mistök sem við erum ekki vanar að gera. Við náðum ekki upp okkar tempói í spili og vorum stressaðar. Það er samt erfitt að útskýra af hverju. Stundum á maður góða daga og stundum slæma."
Annað mark Skota í kvöld kom úr víti. Við spurðum Guðbjörgu út í atvikið. „Þetta er mjög ódýrt víti en það er hægt að dæma á þetta. Ég var búin að skoða klippur af vítunum hjá henni og hún hefur alltaf skotið í þetta horn sme ég fór í svo það var pínu pirrandi."
Mikið hefur verið rætt um þá staðreynd að íslenska liðið hafði haldið hreinu í sjö leiki í röð. Gæti það létt af pressu að fá á sig mark núna? „Kannski, ég veit það ekki. Ég var ekki meira stressuð fyrir þennan leik en aðra en auðvitað var maður með þetta á bakvið eyrað. Það var samt ekki ástæðan fyrir að við töpuðum. Við mættum bara góðu liði sem var betra en við í dag."
Þrátt fyrir tapið hefur íslenska liðið ástæðu til að fagna í kvöld. „Við megum klárlega fagna en það er mjög erfitt að feika einhverja gleði eftir tapleik. Við vildum fagna eftir seinasta leik en vorum rólegar þá. Við eigum samt skilið að fagna því að hafa náð settum markmiðum."
Athugasemdir























