Arsenal með í kapphlaupinu um Ekitike - Mikill áhugi á McAtee - Man Utd tilbúið að selja Malacia
   þri 20. september 2022 12:10
Elvar Geir Magnússon
Gæti misst af HM vegna lyfjamisferlis
Aliou Cisse landsliðsþjálfari Senegal og margir af leikmönnum liðsins hafa sýnt Keita Balde stuðning eftir að fréttir bárust af því að vængmaðurinn gæti misst af HM vegna lyfjamisferlis.

Balde spilar fyrir Spartak Moskvu í Rússlandi og hefur verið settur í 90 daga bann af ítölsku lyfjanefndinni vegna lyfjaprófs sem hann fór í fyrir fimm mánuðum, þegar hann var leikmaður Cagliari.

Ekkert bannað efni fannst í sýningu en þrátt fyrir það er hann dæmdur, fyrir brot á siðareglum við próftökuna.

BBC segir að Balde fái stuðning frá liðsfélögum sínum og þjálfara sem vonast eftir því að lausn finnist svo hann geti farið með Senegal á HM í Katar.

„Hann er talinn einn reyndasti meðlimur hópsins og viðvera hans með hópnum og í klefanum er talin mikilvæg," segir heimildarmaður BBC.

Balde er 27 ára og hefur leikið 40 landsleiki fyrir Senegal og spilaði með liðinu á HM 2018 og á síðustu þremur Afríkukeppnum. Hann er fyrrum leikmaður Inter, Lazio og Sampdoria á Ítalíu.

Samkvæmt dómi lyfjanefndarinnar má Balde spila aftur 5. desember en riðlakeppni HM fer fram 21. - 29. nóvember og 16-liða úrslitin hefjast 3. desember. Hann fær að snúa aftur til æfinga 22 dögum áður en banninu lýkur. Senegal er með gestgjöfunum, Hollandi og Ekvador í riðli á HM í Katar.

Í yfirlýsingu frá umboðsskrifstofu Balde segir að mikilvægt sé að undirstrika að hann hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr lyfjaprófinu.
Athugasemdir
banner