fös 20. nóvember 2020 10:00
Magnús Már Einarsson
Heimir bjartsýnn á að Aron og Lasse verði áfram hjá Val
Aron Bjarnason.
Aron Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, vonast til að miðjumaðurinn Lasse Petry og kantmaðurinn Aron Bjarnason verði báðir áfram með liðinu næsta sumar.

Lasse er samningslaus og hefur íhugað að fara heim til Danmörku en Valsmenn vonast til að hann framlengi samning sinn.

„Það verða ekki miklar breytingar. Lasse Petry er með samning á borðinu og við erum að vonast eftir að hann svari núna í lok vikunnar eða í byrjun næstu viku. Við erum bjartsýnir á að það geti gengið," sagði Heimir í viðtali í Vængjum þöndum hlaðvarpi Vals.

Aron Bjarnason fór á kostum á kantinum hjá Val í sumar en hann var í láni hjá liðinu frá Ujpest í Ungverjalandi.

„Aron Bjarna fer út. Það er búið að skipta um þjálfara í liðinu hans og þeir vilja fá hann og sjá hann. Við erum að vonast eftir því að þessi þjálfari hafi ekki mikið álit á honum eins og sá fyrri," sagði Heimir léttur í bragði. „Við erum að vonast eftir að geta fengið hann lánaðan aftur eins og við gerðum í sumar."

„Lasse Petry og Aron stóðu sig báðir virkilega vel hjá okkur. Aro kom með nýja vídd inn í sóknarleikinn. Hann er góður að hlaupa bakvið varnirnar og hann og Birkir Már (Sævarsson) náðu vel saman, sérstaklega þegar leið á tímabilið."

Hér að neðan má hlusta á þáttinn í heild.


Athugasemdir
banner
banner
banner