banner
   lau 20. nóvember 2021 22:42
Brynjar Ingi Erluson
Ákveðið að reka Solskjær
Ole Gunnar Solskjær er búinn að missa starfið samkvæmt Duncan Castles
Ole Gunnar Solskjær er búinn að missa starfið samkvæmt Duncan Castles
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur ákveðið að reka Ole Gunnar Solskjær en það er Duncan Castles, blaðamaður hjá Times, sem segir frá þessu í hlaðvarpsþætti sínum nú seint í kvöld.

Síðasta stráið var 4-1 tap United gegn Watford í kvöld en United er nú tólf stigum á eftir toppliði Chelsea þegar tólf umferðir eru búnar af deildinni.

Stjórn United boðaði til neyðarfundar klukkan 18:00 í kvöld og hefur hann staðið yfir í nokkra klukkutíma. Hluti stjórnarinnar vildi reka Solskjær og hefur nú verið ákveðið að hann haldi ekki áfram með liðið.

Samkvæmt Duncan Castles þá var það Richard Arnold, framkvæmdastjóri félagsins, sem sá um að ganga frá öllum lausum endum í samningi Solskjær. Castles var fyrstur allra til að greina frá neyðarfundinum.

Solskjær tók við United í desember árið 2018 af Jose Mourinho en honum tókst ekki að vinna titil með liðinu. United mun nú leita að eftirmanni hans en Zinedine Zidane hefur verið orðaður við stöðuna, sem og Brendan Rodgers, stjóri Leicester City.


Athugasemdir
banner
banner
banner