Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 21. janúar 2023 13:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vanda um tíðindi vikunnar: Óttast að sjálfsögðu hvað þetta þýðir fyrir okkur
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýrri stúkan á Laugardalsvelli.
Nýrri stúkan á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilað á Laugardalsvelli.
Spilað á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ein af hugmyndunum sem sett var fram árið 2017 um mögulegt útlit leikvangsins.
Ein af hugmyndunum sem sett var fram árið 2017 um mögulegt útlit leikvangsins.
Mynd: KSÍ
Eldri stúkan.
Eldri stúkan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ceferin vill fá svör.
Ceferin vill fá svör.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gæti heimsótt litla búningsklefann á Laugardalsvelli þegar hann spilar sinn 200. landsleik.
Gæti heimsótt litla búningsklefann á Laugardalsvelli þegar hann spilar sinn 200. landsleik.
Mynd: Getty Images
Hvenær eignast þjóðin nýjan þjóðarleikvang? Hvenær geta fótboltalandsliðin okkar spilað á nýjum velli? Þessar spurningar vöknuðu upp í kjölfar mikillar umræðu um nýja þjóðarhöll í vikunni en slík á að rísa árið 2025.

Formaður KSÍ veit mest um stöðu mála varðandi nýjan þjóðarleikvang og Fótbolti.net ræddi við Vöndu Sigurgeirsdóttur í gær.

„Ég og Hilmar Sigurðsson, stjórnarmaður í KSÍ, vorum að koma rétt áðan af fundi Þjóðarleikvangs ehf. Nú erum við að fara setja í gang svokallaða markaðskönnun (e. request for information), það er það eina sem er eftir svo hægt sé að taka ákvörðun."

„Það er búið að taka allar skýrslur, búin að vera mikil vinna í mörg, mörg ár. Guðni Bergsson og Pétur Marteinsson sem dæmi voru í þessu og margir aðrir hafa komið að þessu. Það er búið að vinna allan undirbúning og þetta er það eina sem er eftir. Þetta hefur tafist frá því í haust en er núna að fara af stað. Þá sjáum við hvað gerist eftir að niðurstöðurnar koma."

„Að sjálfsögðu gleðst ég fyrir hönd inni íþróttanna, en ég óttast að sjálfsögðu líka hvað þetta þýðir fyrir okkur. Ég vona að ríki og borg standi við það sem þau hafa talað um."

„Mér finnst líka að það eigi að hugsa þetta líka saman, væri ekki best að gera þetta þannig? Mér finnst allavega að það eigi að skoða það."

„Ég er nýkomin af fundi í höfuðstöðvum UEFA varðandi fjölgun kvenna í efstu stöðum, stjórn og nefndum. Þar komu menn á máli við mig, þar á meðal Ceferin sjálfur (forseti UEFA). Hann lýsti yfir áhyggjum af stöðunni, við erum á undanþágu með völlinn."

„Ég ætla rétt að vona að þessi tíðindi vikunnar þýði ekki að við færumst langt, langt aftur í röðinni."


Best að gera þetta saman?
Vanda sér fyrir sér að ný þjóðarhöll og nýr þjóðarleikvangur geti verið á sama stað og byggingarnar samtengdar.

„Kristján Ásgeirsson, sem er í mannvirkjanefnd KSÍ, kom með hugmynd um að setja völlinn á milli húsdýragarðs og Suðurlandsbrautar. Þá hefðum við völl til að spila á meðan byggingu stendur því það tekur einhver ár að byggja svona völl. Draumur minn væri þjóðarhöll og bygging á milli hennar og vallarins. Það væri hús íþróttanna sem íþróttahreyfingin myndi samnýta, fundarsalir og alls konar. Þarna gæti einnig verið afreksþjálfunarmiðstöð og alls konar svoleiðis. Borgarlínan á að stoppa á Suðurlandsbrautinni þarna fyrir ofan sem er mjög hentugt."

„Það er samstaða og samstarf innan íþróttahreyfingarinnar og mér finnst þetta svo kjörið."

„Mér finnst að við eigum að vera svolítið stórhuga í þessu, gera þetta flott. Ef við skoðum það sem er að gerast alls staðar úti í heimi, þá erum við að verða svo miklir eftirbátar, það er sorglegt. Það er verið að reisa velli í bæjum hingað og þangað, Gíbraltar er að fara byggja völl."

„Við erum líka opin fyrir því að skoða aðra möguleika, fara í annað sveitarfélag og skoða aðra fjármögnunarmöguleika. Mér finnst vera mín skylda að sitja ekki bara með hendur í skauti og bíða, heldur skoða aðrar mögulegar leiðir."


Finna fyrir þreytu
Hversu líklegt er að kröfur UEFA verði hertar og undanþágum hent út af borðinu? Ísland þyrfti þá að spila annars staðar en á Laugardalsvelli.

„Við fengum bréf í fyrra þar sem þessu var hótað. Við finnum þreytuna gagnvart okkur með þessar undanþágur. Ég get ekki svarað þessu fyrir víst en við finnum fyrir þreytu gagnvart okkur."

„Kannski spilum við á Parken einhvern tímann? Eða í Færeyjum. Frændur vorir í Færeyjum eru komnir miklu lengra en við. Það gæti alveg farið svo."

„Ef ekkert gerist, UEFA hefur sagt við okkur skriflega að þeir vilja fá plan frá okkur. Við erum að gera, það sem mér er sagt að sé það síðasta sem við þurfum að gera, þessa markaðskönnun sem snýr að rekstrinum, hvernig eigi að reka mannvirkið."

„Ég vona svo að ráðamenn standi við það sem þeir hafa lýst yfir."


Störukeppni
En hver á að borga, er það ríki eða borg?

„Það hafa margir notað orðið störukeppni. Þetta eru mjög miklir peningar, það er engin spurning. Og hver eigi að borga hvað, það hefur verið erfitt að ná því saman. Það er sami pakki í gangi með þjóðarhöllina og kannski komast þeir að niðurstöðu sem væri hægt að nota fyrir þjóðarleikvanginn líka."

Ekki opnað fyrr en komist verður að niðurstöðu
Vanda var spurð hvort hún væri að horfa í einhverja dagsetningu þar sem staðan væri orðin nokkuð ljós.

„Við munum funda í hverri viku í sambandi við þessa markaðskönnun. Þegar henni verður lokið, þá vil ég að við setjumst niður, ríki, borg og KSÍ. Það liggur við að ég loki dyrunum og það verði ekki farið út fyrr en það er kominn einhver niðurstaða. Við munum setjast niður og gera einhverja áætlun."

„Ég er ekki að segja að ég vilji að það verði skóflustunga strax næsta dag, en að það verði plan og áætlun. Alveg eins og það er komið núna með að þjóðarhöll eigi að vera tilbúin 2025, að það verði einhvers konar plan líka fyrir fótboltann."

„Ég veit ekki nákvæmlega hvenær markaðskönnunin verður klár, en hún ætti að vera að klár í vor. Þá vil ég að við setjumst niður því við þurfum að fá svar hvenær hægt verður að fara í byggingu á nýjum leikvangi. Verður það eftir mörg ár?"

„Við getum ekki haft aðstöðuna mikið lengur eins og hún er núna. Hún er hrikaleg fyrir áhorfendur og fyrir fólk með fötlun, fyrir ykkur fjölmiðlamenn er hún hræðileg þarna uppi í rjáfri, og hún er vond fyrir leikmenn, þessir klefar eru svo litlir."

„Ég hef stundum sagt að ef Ronaldo kemur með Portúgal í sumar - ég var að vonast til að hann myndi spila 200. leikinn sinn akkúrat á móti Íslandi 20. júní - hann er örugglega vanur að vera sjálfur með jafnstóran klefa og allt liðið er með á Laugardalsvelli. Það er alveg áhugavert fyrir fólk að fara og skoða aðstöðuna. Svo eru undanþágur með völlinn sjálfan."

„Ég mun stíga til jarðar með það, eftir að þessari markaðskönnun er lokið, þá verðum við að setjast niður. Þá er ekki eftir neinu að bíða,"
sagði Vanda.
Athugasemdir
banner
banner