Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 21. mars 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Hef spilað með fullt af góðum markmönnum, en Cessa er sú besta"
Cessa er einstakur leikmaður sem á eftir að ná langt
'Við höfum spilað fullt af leikjum saman og get alveg sagt að við náum vel saman inn á vellinum sem utan.'
'Við höfum spilað fullt af leikjum saman og get alveg sagt að við náum vel saman inn á vellinum sem utan.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þessi tvö ár sem ég hef verið að æfa með henni þá mætir hún alltaf á undan öllum á æfingu, tekur aukaæfingar og er alltaf seinust af æfingum.'
'Þessi tvö ár sem ég hef verið að æfa með henni þá mætir hún alltaf á undan öllum á æfingu, tekur aukaæfingar og er alltaf seinust af æfingum.'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hún er með góðan markannsþjálfara sem hefur gert hana að betri leikmanni
Hún er með góðan markannsþjálfara sem hefur gert hana að betri leikmanni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind var fyrirliði Fylkis
Berglind var fyrirliði Fylkis
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Það er stundum óþolandi hvað hún er góð og maður getur ekki skorað mark á æfingum"

Berglind Rós Ágústsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir verða áfram liðsfélagar þetta sumarið. Þær voru saman hjá Fylki undanfarin tvö sumur og á fimmtudag varð ljóst að Cecilía yrði hjá Örebro í sumar. Berglind gekk í raðir sænska félagsins fyrir áramót.

Berglind er varnar- og miðjukona og Cecilía er markvörður. Fótbolti.net hafði samband við Berglindi fyrir helgi og spurði hana út í Cecilíu.

Hvernig er að fá Cecilíu til liðsins?

„Það er frábært, ekki hægt að kvarta. Cessa er einstakur leikmaður sem á eftir að ná langt og gera góða hluti. Þetta skref finnst mér mjög gott hjá henni. Þótt hún sé ung þá búa í henni miklir hæfileikar og hún hefur þroskast mjög mikið seinustu tvö ár sem ég hef spilað með henni. Hún er mjög dugleg og leggur mikinn metnað í fótboltann og þetta er rétta skrefið í að verða betri leikmaður."

Er hún besti markvörður sem þú hefur spilað með á ferlinum?

„Ég hef spilað með fullt af góðum markmönnum, en Cessa er sú besta sem ég hef spilað með."

Hvað er það við Cecilíu sem veitir varnarlínunni öryggi ? Er Cecilía dugleg að láta í sér heyra? Góð að fá boltann í lappir?

„Hún bjargaði okkur mjög oft síðasta sumar. Ég get einhvernveginn alltaf treyst á að hún verji, eða komi í veg fyrir mark. Veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Ég finn fyrir miklu öryggi þegar hún er í markinu. Ég get alltaf spilað boltanum til baka, hún er alltaf tilbúin að fá boltan í fætur og skilar boltanum vel frá sér."

„Markmenn þurfa líka að tala, þeir eiga að tala mest allavega við varnalínuna og stýra liðinu þar sem hún sér yfir allan völlin, og hún gerir það. Hún talar skýrt, leiðbeinir og lætur í sér heyra. Þú ert ekki að búast við að fimmtán ára stelpa sem er að taka sýn fyrstu skref í efstu deild tali mikið inn á fótboltavellinu og ég skil það, en Cessa talar meira en margar stelpur sem eru eldri en hún. Það er svo mikilvægt og mikill kostur."

„Hún er líka hávaxin og þorin, sem er góð blanda þar sem ég get alltaf treyst á hana að taka boltann í hornum, ég veit ekki hversu oft hún hefur gert það. Það sem mér finnst líka svo mikill kostur í Cessu er að hún mjög mikill karakter og lætur engan komast upp með neitt bull."


En fyrir þig persónulega, er gott að fá kunnulegt andlit? Urðuð þið góðar vinkonur á síðustu tveimur árum?

„Það er mjög gott að hafa kunnuglegt andlit. Það er alltaf gaman að vera í kringum Cessu, hún er fyndin og skemmtileg. Þótt hún sé átta árum yngri en ég þá finn ég ekki fyrir því að ég sé mikið eldri. Við höfum spilað fullt af leikjum saman og get alveg sagt að við náum vel saman inn á vellinum sem utan."

Er eitthvað við hana sem komið hefur á óvart á síðustu tveimur árum?

„Hún hefur þroskast mjög mikið sem leikmaður. Hún er með góðan markannsþjálfara sem hefur gert hana að betri leikmanni og þessi tvö ár sem ég hef verið að æfa með henni þá mætir hún alltaf á undan öllum á æfingu, tekur aukaæfingar og er alltaf seinust af æfingum. Það hefur svo sannarlega skilað sér. Hún er góð fyrirmynd fyrir ungar stelpur. Ég veit alveg að hún mun ná langt, hún leggur sig alltaf 100% fram á æfingum og það er stundum óþolandi hvað hún er góð og maður getur ekki skorað mark á æfingum."

Er hún framtíðar landsliðsmarkvörður í þínum augum?

„Já klárlega, það kemur ekkert annað til greina. Ég er viss um að þetta skref sem hún er að taka núna er í rétta átt að verða byrjunarliðsmarkmaður í landsliðinu."

Kom það þér á óvart, 2019, að hún væri jafngóð og hún var þegar hún mætti í Fylki?

„Ég þekkti hana ekkert þegar hún kom og ég var ekki að búast við neinu, vildi bara láta koma mér á óvart þar sem hún var fimmtán ára þegar hún kom. Hún sannalega kom mér á óvart. Enda hefur hún spilað alla leiki síðan hún kom í Fylki ef ég man rétt. Fylkir er mjög gott félag fyrir ungar stelpur að taka sín frystu skref í meistaraflokki."

Eftir að hafa fylgst með henni í tvö ár, finnst þér þetta rétti tímapunkturinn til að taka næsta skref?

„Já, ég get sagt það. Hún hefur átt tvö mjög góð ár í Pepsí Max deildinni og hún er að mínu mati besti markmaðurinn í deildinni. Þegar þú ert búinn að eiga tvö til þrjú góð ár í efstu deild á Íslandi þá veistu að þú þarft að taka næsta skref. Hún gat alveg tekið eitt ár í viðbót á Íslandi, en að mínu mati finnst mér þetta rétt ákvörðun hjá henni."

„Hún á eftir að þroskast meira sem leikmaður hérna í Svíþjóð, þetta er betri deild með betri leikmönnum og meiri samkeppni. Þetta verður ekki auðvelt, fyrsta árið er aldrei auðvelt, en ef ég þekki hana rétt þá mun hún standa sig mjög vel og á eftir að verða ennþá betri,"
sagði Berglind.

Þær Berglind og Cecilía eru báðar í leikmannahóp Örebro sem mætir Sundsvall í sænska bikarnum klukkan 14:00 í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner