
Bayern W 1 - 0 Arsenal W
1-0 Lea Schuller ('39 )
Bayern Munchen og Arsenal áttust við í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Allianz Arena í Munchen í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir var að venju í byrjunarliði Bayern en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir sátu allan tímann á varamannabekknum.
Bayern var betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og náði forystunni undir lok hans þegar Lea Schuller skallaði boltann í netið.
Það var rosaleg pressa á vörn Bayern í þeim síðari en Glódís fór fyrir sínu liði og var eins og klettur í vörninni. Hreint stórkostleg frammistaða.
Arsenal sótti án afláts í síðari hálfleik en gekk ekki að koma boltanum í netið. Bayern fer því með 1-0 forystu til Englands á fimmtudaginn eftir viku.
Áður en kemur að þeim leik mun Bayern spila gríðarlega mikilvægan leik gegn Wolfsburg á heimavelli.
Sveindís Jane Jónsdóttir spilar með Wolfsburg sem er með tveggja stiga forystu á Bayern á toppi þýsku deildarinnar.