Víkingurinn Stígur Diljan Þórðarson er á leið til ítalska C-deildarfélagsins Triestina frá portúgalska félaginu Benfica. Þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Stígur er 18 ára gamall framherji sem gekk í raðir Benfica frá Víkingi fyrir tveimur árum.
Hann spilaði tvo leiki með Víkingi það sumarið áður en hann hélt til Portúgals.
Síðustu vikur hefur unglingalandsliðsmaðurinn verið að gera upp hug sinn varðandi framtíðina en danska félagið Lyngby og Triestina buðu honum samning og þá höfðu stærri félög í Belgíu og Hollandi einnig áhuga á að fá hann.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net valdi Stígur að ganga í raðir Triestina og er hann búinn að skrifa undir samning við félagið. Hann verður því að öllu óbreyttu kynntur sem nýr leikmaður félagsins á næstu dögum.
Þar hittir hann annan Íslending, Kristófer Jónsson, sem kom til félagsins frá Val á síðasta ári.
Triestina hafnaði í 4. sæti í A-riðli C-deildarinnar á síðasta tímabili og komst þannig í umspil en datt út í fyrstu umferð eftir 3-2 tap gegn Benevento.
Stígur er fæddur árið 2006 og á að baki þrettán leiki og fjögur mörk fyrir unglingalandsliðin.
Athugasemdir