Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
   mán 21. október 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Andrúmsloftið þungt á Akranesi - „Aron hreyfðist ekki einu sinni"
Hlynur Sævar Jónsson, leikmaður ÍA.
Hlynur Sævar Jónsson, leikmaður ÍA.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Skagamenn eiga ekki lengur möguleika á Evrópusæti.
Skagamenn eiga ekki lengur möguleika á Evrópusæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlynur Sævar í leik með ÍA.
Hlynur Sævar í leik með ÍA.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég hafði ekki hugmynd um hvað hann var að flauta á enda hljóp ég strax að honum til að fá útskýringar," segir Hlynur Sævar Jónsson, leikmaður ÍA, við Fótbolta.net í dag aðspurður út í dóminn umdeilda á Akranesi síðasta laugardag.

Elías Ingi Árnason dæmdi ranglega mark af ÍA í lok leiksins gegn Víkingi. Markið hefði að öllum líkindum endað sem sigurmark Skagamanna en í staðinn fóru Víkingar í sóknina og skoruðu sigurmarkið.

Það var dæmt brot á Hlyn Sævar í aðdraganda marksins sem ÍA skoraði.

„Hann segir strax við mig að ég hafi brotið á Aroni Elís með því hlaupa inn í bakið á honum sem er bara óskiljanleg ákvörðun því Aron hreyfðist ekki einu sinni. Maður hefði kannski skilið þetta ef Aron hefði dottið og þannig kannski sett Ella dómara í erfiða stöðu en það er ekkert í þessu, og eins og hann dæmdi leikinn þá bara skil ég ekki hvernig honum dettur í hug að flauta á eitthvað í þessu momenti. Ég talaði bæði við aðstoðardómarana og Erlend fjórða dómara eftir leik og það er enginn sem sér neitt í þessu þannig að Elías tekur þessa risa ákvörðun einn," segir Hlynur.

Svo fóru Víkingar upp í næstu sókn og skoruðu. Hvernig var að sjá það gerast?

„Það var auðvitað gríðarlega svekkjandi, maður var alls ekki búinn að jafna sig á hinu mómentinu og að fá síðan mark í andlitið var mikið högg."

Andrúmsloftið er þungt
Eins og fram hefur komið í umfjöllun Fótbolta.net var mikill æsingur fyrir utan dómaraklefann þar sem menn vildu fá útskýringar. Leikmenn ÍA spörkuðu meðal annars í hurð klefans og Elías Ingi dómari fékk fylgd út úr húsinu.

„Skiljanlega voru læti eftir leik, gríðarlega mikið undir fyrir okkur og menn vildu fá svör. Menn fóru nú ekkert yfir strikið held ég en það voru miklar tilfinningar í þessu eðlilega og ekki hjálpaði það þegar maður sá þetta aftur í sjónvarpinu," segir Hlynur Sævar.

Þessi mistök og atburðarás hafa mikla þýðingu, bæði fyrir Víking í titilbaráttunni og svo fyrir ÍA sem á ekki lengur möguleika á Evrópusæti.

„Þetta er bara drullu fúllt. Við ætluðum okkur að fara á Hlíðarenda næstu helgi í úrslitaleik um Evrópusæti, við erum búnir að leggja ótrúlega mikla vinnu í það í allt sumar og þetta svíður."

„Andrúmsloftið er þungt. Menn er ennþá að jafna sig á þessu en þetta er búið að vera langt tímabil og við förum bara inn í þennan leik með það að markmiði enda sumar á góðum nótum og Viktor nái markametinu," sagði Hlynur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner