Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mið 21. desember 2022 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Ekki hrifinn af hegðun Martínez - „Hann fór yfir strikið"
Mynd: EPA
Enski sparkspekingurinn Ian Wright var ekki skemmt yfir fantabrögðum Emilano Martínez á heimsmeistaramótinu í Katar og segir markvörðinn hafa farið langt yfir strikið.

Martínez er ekki eins og fólk er flest og sást það vel í kringum úrslitaleik mótsins.

Aðferðir hans voru að vísu vel þekktar fyrir það eins og mátti sjá í Suður-Ameríku keppninni á síðasta ári, er hann gerði í því að hæðast að leikmönnum andstæðinganna.

Hann hélt áfram að notast við aðferðir sínar á HM og sást það vel og greinilega í úrslitaleiknum. Þegar Aurélien Tchouameni ætlaði að taka víti kom Martínez með boltann upp að honum og kastaði honum í burtu.

Martínez hélt áfram þegar Randal Kolo Muani tók sína spyrnu og fékk hann gula spjaldið fyrir. Eftir leikinn var hann valinn besti markvörður mótsins og bauð þar upp á sérkennilegt látbragð til að þagga í stuðningsmönnum Frakka áður en hann hélt svo inn í klefa og kallaði eftir mínútuþögn fyrir Kylian Mbappe.

Sviðsljósið hefur verið hans síðan leikurinn kláraðist en Wright er ekkert sérstaklega hrifinn af þessari hegðun þó hann sé mikill aðdáandi leikmannsins.

„Munið þið eftir þessari óviðeigandi hegðun hans í garð Auba og allt sem hann var að gera?,“ sagði Wright sem minntist þá á leik Aston Villa gegn Arsenal á síðasta ári er Pierre-Emerick Aubameyang steig á vítapunkinn.

„Ég hugsaði að hann væri að taka þetta á næsta stig ef leikurinn færi í vítakeppni og það gerðist. Ég er hrifinn af Emi en hann fór yfir strikið í vítakeppninni, það er að segja ef við tölum um íþróttamennsku. Hann fór klárlega yfir strikið,“ sagði hann í hlaðvarpsþættinum Ringers FC.
Athugasemdir
banner