Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 22. janúar 2025 18:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Davíð Smári: Það eru þannig leikmenn sem við erum að leitast eftir
'Ég held það sé bara best að segja að við séum að hlaða blekinu í pennann'
'Ég held það sé bara best að segja að við séum að hlaða blekinu í pennann'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emmanuel Duah er 21 árs Ganverji - kantmaður.
Emmanuel Duah er 21 árs Ganverji - kantmaður.
Mynd: Vestri
Diego Montiel er sænskur miðjumaður sem samdi við Vestra í vetur.
Diego Montiel er sænskur miðjumaður sem samdi við Vestra í vetur.
Mynd: Vestri
'Benedikt Warén er frábært dæmi, kemur hingað og skilur allt eftir til þess að setja fótboltann í fyrta sætið'
'Benedikt Warén er frábært dæmi, kemur hingað og skilur allt eftir til þess að setja fótboltann í fyrta sætið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er mjög ánægður með hugarfar leikmanna'
'Ég er mjög ánægður með hugarfar leikmanna'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég var aldrei á þeirri skoðun að fara frá Vestra'
'Ég var aldrei á þeirri skoðun að fara frá Vestra'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er mjög ánægður með hugarfar leikmanna, við erum að vinna með ákveðnar breytur sem eru kannski öðruvísi en hjá öðrum. Menn eru ákveðnir í því að gera það besta úr því sem við höfum og það er hugarfarið sem við þurfum að hafa," segir Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, sem er á leið inn í sitt þriðja tímabil með liðið. Vestri var í fyrsta sinn í Bestu deildinni á síðasta tímabili og náði að halda sæti sínu í deildinni.

Vestri hefur á undirbúningstímabilinu spilað tvo leiki í Þungavigtarbikarnum og hafa töpin verið stór en staðan gegn Stjörnunni var þó jöfn eftir um klukkutíma leik, en þá skildu leiðir. Hópurinn hjá Vestra er þunnskipaður og það er ekkert leyndarmál. Ellefu menn eru farnir úr hópnum og fjórir nýir komnir inn. Það er hins vegar engan bilbug á þjálfaranum að finna.

„Þegar við mættum FH í fyrsta leik vorum við ekki búnir að sparka í bolta; vorum ekki búnir að taka eina fótboltaæfingu. Við tókum nokkrar hlaupaæfingar og mættum svo í leikinn. Við náðum svo góðri æfingaviku fyrir leikinn gegn Stjörnunni, náðum að fara vel yfir hlutina og sýndum þar, sérstaklega varnarlega, fína spilamennsku í 50 mínútur áður en við sprungum svolítið á því. Stjarnan skipti um lið í hálfleik, keyrði upp tempóið og náði að skilja okkur svolítið eftir enda stórkostlegt lið sem við mættum þar."

Vandfundið í erlendum leikmönnum
„Allir samningsbundnir leikmenn eru komnir vestur. Við erum bara á markaðnum að leita að leikmönnum. Það er gríðarlega mikil leikmannavelta hjá okkur, því verr og miður oft á tíðum, margir íslenskir og uppaldir leikmenn sem eru ekki með okkur áfram og það er gríðarlegur missir í þeim. Vestra liðið stóð sig vel andlega á síðasta tímabili, fórum þetta svolítið mikið á hjartanu og það var mikill baráttuandi í liðinu sem er eitthvað sem við viljum klárlega standa fyrir. Það er eitthvað sem er vandfundið í erlendum leikmönnum. Við erum að reyna skoða markaðinn, taka réttar ákvarðanir því það eru stórar ákvarðanir að semja við menn. Það vantar lykilmenn í lykilstöður."

Þeir Gustav Kjeldsen, Morten Ohlsen og Eiður Aron Sigurbjörnsson verða allir áfram. Er miðvörðurinn kannski staða sem þarf minnst að hafa áhyggjur af?

„Ég held í okkar miðverði frá því í fyrra, þá sem spiluðu mest. En við missum ákveðna samkeppni, þá sem ýta á hina. Friðrik Þórir Hjaltason og Ívar (Breki Helgason) eru dottnir út ásamt Aurelien Norest. Okkur vantar samkeppni, maður vill ekki að menn séu of þægilegir í sínum stöðum. Það þarf því klárlega að koma einhver inn líka til að ýta á þá og reyna vinna sér sæti í liðinu. Við erum alveg opnir fyrir því að finna leikmenn í flestar stöður."

Eru einhver leikmannamál á þannig stigi að þau gætu verið orðin klár á næstu dögum?

„Ég held það sé bara best að segja að við séum að hlaða blekinu í pennann."

Þjálfarinn segir að það sé í ákveðnum forgangi að fá inn markvörð og framherja. „Það er svo ýmislegt annað sem við erum að skoða. Hópurinn er gríðarlega lítill eins og staðan er núna og við höfum verið að æfa með fjóra unga leikmenn, fæddir 2008, sem hafa verið að koma inn í þetta hjá okkur. Það er gott að þeir fái að sprikla í djúpu lauginni."

Gætu verið búnir að fylla hópinn en vilja vanda til verka
Það er yfirleitt betra að menn nái að æfa sem mest og lengst saman, en er eitthvað stress að fá inn menn sem fyrst?

„Nei, ekki þannig. Við munum alltaf finna leikmenn, og við gætum fyrir löngu verið búnir að fylla hópinn, en þetta eru stórar ákvarðanir og við viljum vinna þetta vel og vandlega. Við erum ekki þar að við getum hoppað bara á eitthvað. Við ætlum að standa okkur vel í deildinni og það þarf að leikgreina þessa leikmenn alveg í þaula og svo ganga enn lengra með því að spyrjast fyrir um hvernig leikmennirnir eru af því það eru ekkert allir leikmenn sem virka hér á Íslandi, og hvað þá hér á Ísafirði."

Trúir ekki öðru en að fleiri íslenskir leikmenn haldi vestur
Vestri hefur endurheimt Guðmund Pál Einarsson úr Garðabænum og Birkir Eydal er kominn inn í hópinn frá venslaliðinu Herði, fyrir utan þá hefur enginn íslenskur leikmaður gengið í raðir Vestra í vetur. Það eru ekkert mjög margir leikmenn ennþá með lausa samninga, en þó einhverjir.

Davíð Smári var spurður hvort hann sæi fyrir sér að á næstu árum gæti gengið betur að sækja íslenska leikmenn.

„Ég trúi bara ekki öðru. Við höfum sýnt fram á að við getum tekið á móti leikmönnum sem eru kannski að einhverju leyti ómótaðir og eru að taka sín fyrstu skref. Við getum boðið þeim hér upp á atvinnumannaumhverfi á sumrin. Hér borða menn saman í hádeginu, sjúkraþjálfari í fullu starfi, völlurinn er aðgengilegur öllum stundum, hægt að taka aukaæfingar. Við höfum allt til alls þegar völlurinn er í lagi og mér finnst við hafa sýnt það með t.d. Benedikt Warén og Tarik Ibrahimagic. Við seldum þrjá leikmenn í fyrra og þar á meðal var ein stærsta salan eftir síðasta tímabil þegar við seldum Benedikt."

„Ég held það séu alveg einhverjir töffarar þarna úti sem eru tilbúnir að setja fótboltann í fyrsta sætið, fara aðeins að heiman og keyra almennilega á þetta. Það eru þannig leikmenn sem okkur vantar og það eru þannig leikmenn sem hafa komið hingað og gengið vel. Benedikt Warén er frábært dæmi, kemur hingað og skilur allt eftir til þess að setja fótboltann í fyrta sætið. Það eru þannig leikmenn sem við erum að leitast eftir."

„Mér finnst rosa góð sía að sjá að það eru ákveðnir leikmenn sem þora ekki eða finnst of mikið stökk að fara að heiman og mögulega geta ekki hitt alla vini sína öllum stundum. Það er góð sía fyrir okkur því við viljum leikmenn þar sem fótboltinn er í fyrsta sæti."


Ætlaði alltaf að standa við samninginn
Davíð Smári var orðaður við önnur félög síðasta haust. Einhver umræða fór af stað um hvort að Davíð myndi halda annað.

„Ég hef alltaf sagt að mér hefur verið tekið ofboðslega vel hér á Ísafirði og ég hef fundið fyrir gríðarlegum stuðningi frá félaginu. Ég var aldrei á þeirri skoðun að fara frá Vestra. Mér líður mjög vel og á í mjög góðu samstarfi með öllum sem standa að félaginu. Það er ákveðið hrós, bæði á mig og félagið, að menn hafi verið að horfa til mín. En það stóð aldrei til annað en að ég myndi klára samninginn hérna."

Davíð segir þá að von sé á tíðindum á næstunni varðandi þjálfarateymið en hann hefur verið án aðstoðarþjálfara síðan Daniel Osafo-Badu kvaddi Vestra í vetur. Hann er ánægður með þróunina á umgjörðinni og aðstöðumálum þó að vissulega megi enn bæta í varðandi völlinn sjálfan. Það er þó ekki bara undir félaginu sjálfu komið.

Komnir/farnir hjá Vestra frá síðasta tímabili
Komnir
Diego Montiel frá Svíþjóð
Emmanuel Agyeman Duah frá Færeyjum
Guðmundur Páll Einarsson frá KFG
Birkir Eydal frá Herði

Farnir
Benedikt V. Warén í Stjörnuna
Andri Rúnar Bjarnason í Stjörnuna
William Eskelinen til Finnlands
Gunnar Jónas Hauksson
Ibrahima Balde í Þór
Jeppe Gertsen
Elvar Baldvinsson í Völsung
Aurelien Norest
Inaki Rodriguez
Friðrik Þórir Hjaltason
Ívar Breki Helgason
Athugasemdir
banner
banner