mið 22. febrúar 2023 16:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikmenn í Álaborg sagðir óánægðir með Hamren
Erik Hamren.
Erik Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn AaB í Danmörku eru sagðir verulega ósáttir við Erik Hamren, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, og hans stjórnarhætti.

Hamren var ráðinn til Álaborgar í september á síðasta ári. Um er að ræða fyrsta þjálfarastarf Hamren síðan hann hætti með íslenska landsliðið 2020. Hann þekkti vel til hjá Álaborg þar sem hann þjálfaði liðið 2004-2008. Hann gerði liðið að dönskum meistara 2008.

Hamren, sem er 65 ára Svíi, var hársbreidd frá því að koma Íslandi á EM alls staðar en umspilsleikur gegn Ungverjalandi tapaðist á dramatískan hátt. Leikmenn hafa talað ansi vel um Hamren eftir tíma hans með íslenska landsliðið.

En núna segir Ekstrabladet í Danmörku frá því að mikil óánægja sé með störf Hamren í Álaborg. Leikmenn gengu á fund með framkvæmdastjóranum, Thomas Bælum, þar sem þeir lýstu yfir óánægju með Hamren.

Leikmenn segja hugmyndir Hamren vera gamaldags og leikstíll hans þykir ekki henta í þeirri stöðu sem liðið er í. Æfingarnar eru ekki sagðar góðar og leikmenn eru farnir að hafa minni og minni trú á því að Hamren geti haldið liðinu upp í dönsku úrvalsdeildinni.

Hamren vildi ekki tjá sig um málið þegar Ekstrabladet leitaðist eftir því, en Álaborg er sem stendur í næst neðsta sæti dönsku deildarinnar með 14 stig. Liðið er átta stigum frá tíunda sætinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner