Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   lau 22. júní 2024 11:40
Ívan Guðjón Baldursson
Rangnick: Getum sigrað hverja sem er
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ralf Rangnick, landsliðsþjálfari Austurríkis, var kátur eftir lífsnauðsynlegan sigur gegn Póllandi í riðlakeppni Evrópumótsins í gær.

Austurríki tók forystuna snemma leiks en Pólverjar jöfnuðu og hélst staðan jöfn þar til í síðari hálfleik, þegar lærisveinar Rangnick tóku völdin á vellinum og endurheimtu forystuna.

„Fyrstu 20 mínútur leiksins voru fullkomnar af okkar hálfu en svo jafnaðist þetta út þar til í leikhlé. Í síðari hálfleik stjórnuðum við gangi mála frá upphafi til enda og verðskulduðum þennan sigur fyllilega," sagði Rangnick.

„Það voru nokkrir leikmenn sem stóðu sig ekki nægilega vel í fyrri hálfleik en þeir stigu upp eftir leikhléð. Við erum ekki með nógu sterkan leikmannahóp til að fimm eða sex leikmenn spili undir sínu vanalega getustigi, það gengur ekki upp."

Christoph Baumgartner var meðal leikmanna Austurríkis sem áttu slakan fyrri hálfleik. Hann var öflugur í síðari hálfleik og skoraði til að taka forystuna fyrir Austurríki. Baumgartner fagnaði markinu dátt, hann spretti að Rangnick og faðmaði þjálfarann til að þakka honum fyrir samtal sem þeir áttu í hálfleik.

„Í leikhléinu sagði ég við Christoph að hann er afar gæðamikill leikmaður og gæti gert gæfumuninn í dag. Ég sagði við hann að við þurftum ekkert sérstakt frá honum, bara að hann myndi spila á sínu vanalega getustigi. Hann var stórkostlegur í síðari hálfleik."

Austurríki spilar úrslitaleik við Holland í síðustu umferð riðlakeppninnar, þar sem jafntefli mun að öllum líkindum nægja til að koma liðinu áfram í 16-liða úrslitin.

„Við vorum ekki uppá okkar besta í fyrstu umferðinni gegn Frakklandi, en við erum fullir sjálfstrausts og vitum að við getum sigrað gegn hvaða andstæðingum sem er."

Staðan í riðlinum:
1. Frakkland - 4stig
2. Holland - 4stig
3. Austurríki - 3stig
4. Pólland - 0stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner