Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 23. febrúar 2023 12:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir það vitleysu að æfingaaðferðir Hamren séu úreltar
Erik Hamren.
Erik Hamren.
Mynd: Getty Images
Hamren að störfum hjá íslenska landsliðinu.
Hamren að störfum hjá íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ekstrabladet í Danmörku sagði frá því í gær að leikmenn AaB í Álaborg væru óánægðir með Erik Hamren, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands.

Hamren var ráðinn til Álaborgar í september á síðasta ári. Um er að ræða fyrsta þjálfarastarf Hamren síðan hann hætti með íslenska landsliðið 2020. Hann þekkti vel til hjá Álaborg þar sem hann þjálfaði liðið 2004-2008. Hann gerði liðið að dönskum meistara 2008.

Hamren, sem er 65 ára Svíi, var hársbreidd frá því að koma Íslandi á EM alls staðar en umspilsleikur gegn Ungverjalandi tapaðist á dramatískan hátt. Leikmenn hafa talað ansi vel um Hamren eftir tíma hans með íslenska landsliðið.

En núna er sagt að leikmannahópurinn í Álaborg sé ósáttur við hans störf. Leikmenn gengu á fund með framkvæmdastjóranum, Thomas Bælum, þar sem þeir lýstu yfir óánægju með Hamren.

Leikmenn segja hugmyndir Hamren vera gamaldags og leikstíll hans þykir ekki henta í þeirri stöðu sem liðið er í. Æfingarnar eru ekki sagðar góðar og leikmenn eru farnir að hafa minni og minni trú á því að Hamren geti haldið liðinu upp í dönsku úrvalsdeildinni.

Hamren vildi ekki tjá sig um málið en aðstoðarþjálfari hans, Rasmus Würtz, gerði það.

„Það eru alls staðar óánægðir leikmenn, alls staðar. Ég veit að það er sérstaklega áhugavert að skrifa um okkur núna út af þeirri stöðu sem við erum í," segir Würtz en hann segir það ekki rétt að þjálfaraaðferðir Hamren séu gamaldags.

„Það er algjörlega gripið úr lausu lofti. Ef þú mætir á æfingu og horfir á okkur, þá sérðu að það er ekki rétt. Ég þvertek fyrir það."

„Við þurfum að eyða orku okkar á æfingasvæðinu en ekki í eitthvað svona rugl. Við erum að leggja mikið á okkur til að laga þessa stöðu," sagði Würtz enn fremur.

Álaborg er sem stendur í næst neðsta sæti dönsku deildarinnar með 14 stig. Liðið er átta stigum frá tíunda sætinu.
Athugasemdir
banner