Manchester United ætlar að selja kamerúnska markvörðinn Andre Onana frá félaginu í sumar og þá líklega til Sádi-Arabíu en þetta kemur fram í enska blaðinu Sun.
Onana er 28 ára gamall og kom til félagsins frá Inter fyrir tveimur árum.
Mikil spenna var fyrir Onana eftir að David De Gea hafði staðið í markinu hjá United í rúman áratug en honum hefur ekki enn tekist að sannfæra stuðningsmenn United um ágæti sitt.
Hann hefur átt fjölmörg mistök sem hafa leitt að marki og segir Sun að nú hafi United gefist upp á honum og sé reiðubúið að selja hann í sumar.
Félög í Sádi-Arabíu hafa áhuga á Onana og er Ruben Amorim. stjóri United, þegar búinn að setja upp lista af markvörðum sem hann vill fá í staðinn.
Sanne Lammens, 22 ára gamall markvörður Antwerp í Belgíu, er efstur á þeim lista. Hann var á dögunum valinn í belgíska landsliðið fyrir leikina í Þjóðadeildinni.
Annar markvörður sem kemur til greina er Frakkinn Lucas Chevalier sem er á mála hjá Lille í Frakklandi. United og Man City hafa bæði verið að eltast við hann síðustu mánuði.
Lammens er talinn falur fyrir 30 milljónir punda á meðan Lille vill 40 milljónir fyrir Chevalier. Báðir eru með samning til 2027.
Athugasemdir