Cecilía Rán Rúnarsdóttir átt enn eina flottu frammistöðuna með ítalska liðinu Inter er það mætti Fiorentina í Seríu A, en hún dugði því miður ekki til.
Íslenska landsliðskonan er að eiga stórkostlegt tímabil með Inter og hefur tölfræðin sýnt fram á að hún sé ein sú besta í fimm stærstu deildum Evrópu.
Í dag hafði hún nóg að gera og átti nokkrar góðar vörslur. Undir lok fyrri hálfleiksins fengu heimakonur í Fiorentina vítaspyrnu er Agnese Bonfantini var tekin niður í teignum.
Veronica Boquete steig á punktinn en Cecilía sá við henni en þetta var önnur vítaspyrnuvarsla hennar á tímabilinu.
Hún kom þó engum vörnum við þegar Bonfantini fékk boltann í teignum snemma í síðari hálfleiknum og reyndist það eina mark leiksins.
Inter er áfram tíu stigum á eftir toppliði Juventus þegar fimm leikir eru eftir af tímabilinu og lítur allt út fyrir að titilbaráttunni sé lokið.
Amanda Andradóttir kom inn af bekknum í 3-0 sigri Twente á Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni. Twente er í harðri titilbaráttu en liðið situr í öðru sæti með 45 stig, jafnmörg og topplið PSV.
Málfríður Anna Eiríksdóttir lék allan leikinn með B93 sem gerði 1-1 jafntefli við ASA Aarhus í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar. Þetta var fyrsta umferðin í fallriðlinum en B93 er í fjórða sæti.
Dagný Brynjarsdóttir spilaði þá síðustu mínúturnar í 2-0 sigri West Ham á Tottenham í WSL-deildinni á Englandi. West Ham er í 8. sæti með 18 stig.
Athugasemdir