Norska félagið Bodö/Glimt hefur verið að gera stórkostlega hluti í Evrópukeppnum á síðustu árum og er komið alla leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
Þar spilar liðið við enska stórveldið Tottenham Hotspur, sem er margfalt stærra félag heldur en Bodö/Glimt á alla vegu. Það ríkir mikil eftirvænting fyrir þennan afar áhugaverða slag, en það vekur athygli að leikmenn Bodö/Glimt eru að fara inn í þrettánda mánuðinn í röð án þess að hafa fengið raunverulegt frí.
Norska deildartímabilið byrjar um mars/apríl mánaðamótin á hverju ári, eftir undirbúningstímabil í febrúar og mars, og hefur Bodö/Glimt ekki fengið frí síðan veturinn 2023-24 vegna góðs gengis í Evrópudeildinni.
Norska deildartímabilinu lýkur í október og því geta leikmenn Bodö/Glimt búist við því að fá ekki frí fyrr en í fyrsta lagi næsta haust. Þeir munu þá hafa spilað fótbolta í 22 mánuði án frís.
Kjetil Knutsen þjálfari er mjög ánægður með árangurinn en viðurkennir að liðið hafi ekki verið tilbúið fyrir aukið leikjaálag. Einhverjir leikmenn liðsins finna meira fyrir því en aðrir þar sem álagið er ekki einungis líkamlegt heldur einnig andlegt.
Félagið er afar stolt af frábærum árangri í Evrópu og er að vinna hörðum höndum að því að finna lausnir til að koma í veg fyrir sömu vandamál í framtíðinni.
Félagið ætlar að stækka og bæta alla umgjörð í kringum aðalliðið og stækka leikmannahópinn með þeim hagnaði sem skapast þökk sé velgengni liðsins.
Bodö/Glimt er hingað til búið að slá FC Twente, Olympiakos og Lazio úr leik í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir