Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   lau 23. júlí 2022 19:44
Ívan Guðjón Baldursson
Arsenal hefur eytt mest: „Nóg eftir af glugganum"
Mynd: Arsenal

Edu er yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal og ríkir mikil ánægja með hans störf í sumar þar sem félagið er búið að krækja í nokkra góða leikmenn, þar á meðal tvo frá Manchester City.


Arsenal hefur eytt mestum pening allra úrvalsdeildarfélaga í leikmannakaup í sumar og segir Edu að félagið sjái enga ástæðu til að hætta eyðslunni.

Arsenal er búið að kaupa fimm leikmenn fyrir rúmlega 120 milljónir punda í heildina sem er nokkrum milljónum meira heldur en nágrannarnir og erkifjendurnir í Tottenham hafa eytt.

„Það er enn nóg eftir af glugganum og við getum ennþá gert eitthvað. Við erum tilbúnir með puttann á púlsinum ef einhver góð staða kemur upp á markaðinum," sagði Edu.

Arsenal er búið að krækja í Gabriel Jesus og Oleksandr Zinchenko frá Man City, Fabio Vieira frá Porto og Matt Turner og Marquinhos frá Norður- og Suður-Ameríku.

Til samanburðar er Tottenham búið að næla sér í Richarlison, Yves Bissouma, Djed Spence og Fraser Forster auk Ivan Perisic og Clement Lenglet á lánssamningum.

Hvorugu félagi hefur tekist að selja fyrir háar upphæðir í sumar. Tottenham seldi Steven Bergwijn til Ajax fyrir tæpar 30 milljónir punda á meðan Arsenal seldi Matteo Guendouzi til Marseille fyrir tæpar 10.

Manchester City er í þriðja sæti yfir þau úrvalsdeildarfélög sem hafa eytt mest í glugganum. Englandsmeistararnir eru rétt komnir yfir 100 milljónir en eru þó búnir að selja leikmenn fyrir tæplega 200 milljónir.

Fimm eyðsluhæstu félögin samkvæmt Sky:
1. Arsenal (121,5m)
2. Tottenham (115m)
3. Man City (101,1m)
4. Leeds (91,5m)
5. Chelsea (81,5m)


Athugasemdir
banner