Franski miðvörðurinn Malang Sarr á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea, en félagið ætlar að hleypa honum burt á frjálsri sölu til að borga ekki launin hans á næstu leiktíð.
Sarr er 25 ára gamall miðvörður sem var fenginn til Chelsea fyrir fjórum árum síðan. Hann kom þá úr röðum OGC Nice á frjálsri sölu eftir að hafa runnið út á samningi.
Sarr var þá mikilvægur hlekkur í liði Nice og lykilmaður í yngri landsliðum franska landsliðsins, en félagaskipti hans til Chelsea heppnuðust ekki fullkomlega.
Hann var lánaður beint til FC Porto í Portúgal en tókst ekki að hrífa þar eða hjá Chelsea eftir að honum var skilað þangað. Hann þótti ekki nægilega góður til að spila fyrir Chelsea en félagið hefur átt í vandræðum með að losna við leikmanninn.
L'Equipe greinir frá þessum fregnum og segir að Sarr sé að semja við RC Lens, sem leikur í efstu deild franska boltans. Hann fór í læknisskoðun hjá félaginu í gær.
Sarr spilaði í heildina 21 leik á fjórum árum hjá Chelsea og var á láni hjá FC Porto og AS Mónakó helminginn af samningnum.
Athugasemdir