Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 23. nóvember 2022 11:35
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Svona karakterar eru að deyja út“ - Ný bók með sögum frá ferli Kjartans Mássonar
Engin helvítis ævisaga.
Engin helvítis ævisaga.
Mynd: Fótbolti.net
Kjartan Másson.
Kjartan Másson.
Mynd: Fótbolti.net - Davíð Örn Óskarsson
„Hann er alvöru karakter, alvöru týpa. Margir myndu segja að hann væri af gamla skólanum. Hann var af gamla skólanum en var líka nýjungagjarn," segir Sævar Sævarsson sem skrifaði bókina 'Kjartan Másson – Engin helvítis ævisaga'.

Bókin inniheldur skemmtilegar sögur frá ferli Kjartans Mássonar sem fótboltaþjálfari, leikfimi- og sundkennari og vallarstjóri. Það gustaði gjarnan af Kjartani enda var harður í horn að taka og fór ótroðnar slóðir.

Bókina er hægt að kaupa í gegnum heimasíðuna millilending.is

Kjartan er öflugur karakter sem litaði íslenskan fótbolta á þjálfaraferli sínum. Hann var óhræddur við að segja hlutina umbúðalaust og var mjög umdeildur.

„Ég fór af stað með þá hugmynd að safna saman nokkrum skemmtilegum sögum. Ég hafði sjálfur heyrt fullt af þessu í Keflavík og var sjálfur hjá honum í leikfimi og þegar ég var að reyna eitthvað fyrir mér í fótboltanum," segir Sævar sem var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn.

„Þegar ég tók viðtal við hann fyrir jólablað í Keflavík þá datt mér í hug að taka þessar sögur saman. Ég fékk leyfi hjá honum og þegar ég var að ræða við hann í síma þá lofaði ég honum að þetta yrði mjög skemmtilegt."

„Hann var mjög umdeildur og margt af því sem hann gerði orkaði tvímælis. Ég sagði honum að þetta yrði ekki ævisaga, heldur skemmtilegar sögur. Þá sagði hann þessi fleygu orð 'Já, engin helvítis ævisaga' og það varð auðvitað titillinn á bókinni.

Maður var skíthræddur við hann
En fyrir þá sem ekki þekkja til Kjartans, hver er maðurinn?

„Kjartan Másson er Eyjamaður og er goðsögn í Vestmannaeyjum. Hann er aðstoðarþjálfari þegar Eyjamenn vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og þjálfari þegar þeir vinna fyrsta bikartitilinn. Svo nær hann besta árangri Víðis í Garði í efstu deild og upp úr 1990 er hann fenginn sem aðalþjálfari hjá Keflavík. Þá eru fjárhagsörðugleikar og ný stjórn að taka við," segir Sævar.

„Hann fer upp í efstu deild með Keflavík og endar með liðið í þriðja sæti í efstu deild 1993 en hættir þá. Það var einhver togstreita innan félagsins og ekki alltaf allir ánægðir með aðferðirnar hans. Hann fer þá í Víking,"

„Hann var rosalega harður og þú getur ímyndað þér hvernig það var að vera krakki í leikfimi eða á fótboltaæfingum og hann var að öskra fúkyrðum yfir okkur. Maður var skíthræddur við hann. Hann fór oft leiðir sem fékk fólk til að hugsa 'hvað í andskotanum er maðurinn að hugsa'," segir Sævar en Kjartan er í dag 76 ára gamall.

„Þetta eru skemmtilegar sögur, svona karakterar eru að deyja út. Ég ætla bara að fullyrða það að enginn þjálfari sé svona í dag. Tímarnir hafa breyst og ég held að Kjartan yrði ekki langlífur í starfi miðað við samfélagið sem við búum við í dag. Það kann að vera að við séum á leið í rétta átt en ég læt lesendur dæma um það."

Viðtalið við Sævar er í útvarpsþættinum og hefst eftir 1:25 í þessari upptöku
Útvarpsþátturinn - Ronaldo, HM og Kaggi Más
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner