Aston Villa íhugar að fá De Bruyne - Stórliðin á eftir argentínsku ungstirni - Verður Farke rekinn?
   fim 24. apríl 2025 12:24
Brynjar Ingi Erluson
Orri fær nýjan þjálfara í sumar
Imanol Alguacil hættir með Sociedad í sumar
Imanol Alguacil hættir með Sociedad í sumar
Mynd: EPA
Spænski þjálfarinn Imanol Alguacil hættir með Real Sociedad eftir þessa leiktíð en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins í dag.

Alguacil tók við Sociedad árið 2018 og undir hans stjórn náði félagið besta árangri sínum í meira en 40 ár.

Liðið varð spænskur konungsbikarmeistari árið 2021 og á síðasta tímabili kom hann því í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn síðan 2013.

Í tilkynningu Sociedad kemur fram að Alguacil hafi tekið ákvörðun um að hætta eftir tímabilið og mun því íslenski landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson fá nýjan þjálfara fyrir næsta keppnistímabil, en Orri kom til félagsins frá FCK fyrir þessa leiktíð.

Alguacil hefur ekkert viljað tjá sig um hvað tekur við hjá honum en hann hefur verið orðaður við stærri félög í La Liga. Ekki kemur fram í tilkynningunni hver mun taka við keflinu af Alguacil, en það mun væntanlega skýrast betur eftir tímabilið.

Hann hefur stýrt Sociedad í 325 leikjum og náð frábærum árangri en hann er með 1,65 stig að meðaltali í leik og unnið 152 leiki, gert 81 jafntefli og tapað 92.

Sociedad er í 9. sæti deildarinnar með 42 stig, aðeins fjórum stigum frá Evrópusæti þegar fimm umferðir eru eftir.


Athugasemdir
banner