Annan leikinn í röð tapaði ÍBV með marki í uppbótartíma en liðið er í fallhættu fyrir lokaumferðina. Eyjamenn eru stigi á undan Víkingi Ólafsvík sem er í fallsæti.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 2 ÍBV
„Þessi tvö mörk sem við höfum fengið á okkur í lokin eru einu mörkin sem við höfum fengið á okkur í uppbótartíma í sumar. Það er ferlega vont að fá þau á okkur í lok tímabils," segir Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
„Við eigum að verjast þessu, í Hafnarfirði eigum við að koma boltanum betur frá okkur og núna eigum við að ekki að vera að brjóta svona. Það er ekkert að gerast. Svo er dekkningin út úr korti"
„Þetta var hægur leikur en við vorum of þungir. Við komumst tvívegis yfir og það á að nægja til að taka allavega stig, sem við hefðum verið ánægðir með. Við vorum ólíkir sjálfum okkur og ólíkir því sem við ætluðum að gera. Þetta var þungt og heilt yfir er ég ekki ánægður."
ÍBV á heimaleik gegn KA í lokaumferðinni en Eyjamenn hafa verið í fallbaráttunni undanfarin ár.
„Eyjamenn vilja vera með bakið upp við vegginn. Ár eftir ár vilja þeir hafa þetta þannig. Eyjamenn kunna að klára þetta og vonandi klárum við þetta á laugardaginn."
Kristján segir að Shahab Zahedi hafi verið tekinn af velli vegna meiðsla í dag en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir