Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 24. nóvember 2020 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Öll augu á Moukoko - „Eltu drauminn eins og ljón"
Mynd: Getty Images
Youssoufa Moukoko braut blað í sögu þýsku deildarinnar um helgina er hann varð yngsti leikmaðurinn til að spila í deildinni. Hann hefur lagt mikla vinnu í að komast á þennan stað en hann sagði frá því í viðtali við DAZN.

Moukoko varð 16 ára gamall á föstudaginn sem þýddi það að hann var löglegur fyrir leik Borussia Dortmund gegn Herthu Berlín á laugardeginum.

Hann byrjaði á bekknum og kom við sögu á 85. mínútu er hann kom inná fyrir Erling Haaland, sem hafði skoraði fjögur mörk í leiknum.

Gæði Moukoko hafa verið rædd í fjölmiðlum um allan heim en hann skoraði urmul af mörkum fyrir yngri lið Dortmund áður en hann fékk kallið.

„Ég get ekkert að því gert að vera góður í fótbolta. Maður uppsker eins og maður sáir. Draumurinn var alltaf að gerast atvinnumaður í fótbolta og ef þú átt þér þann draum þá verður þú að elta hann eins og ljón," sagði Moukoko.

Hann og bandaríski sóknartengiliðurinn Giovanni Reyna náðu vel saman frá fyrsta degi þrátt fyrir tungumálaörðuleika.

„Við töluðum aldrei saman því hann talaði ekki þýsku og ég átti í erfiðleikum með enskuna en við skildum hvorn annan á vellinum og það var ótrúleg stund," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner