KA er Kjarnafæðimótsmeistari eftir 3-0 sigur á Þór í Boganum í kvöld. Fótbolti.net ræddi við Ívar Örn Árnason leikmann KA eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 3 - 0 Þór
„Þetta er vorboðinn, að það sé stutt í mót og þetta er helvíti góð tilfinning að byrja tímabilið almennilega með málmi, málmur er málmur," sagði Ívar Örn.
„Þetta eru alltaf góðir leikir, það er alltaf meira undir, montréttur og fleira. Margir hverjir sem maður er búinn að þekkja lengi og þess vegna er aðeins meira undir og meira 'intensity', það gerir þetta ennþá sætara fyrir vikið."
Ívar minntist svo á atvik þar sem Þórsarinn Ragnar Óli Ragnarsson fékk að líta rauða spjaldið.
„Það minnti mann á að þetta væri grannaslagur hérna í lokin með rauðu spjaldi og smá kíting en það er bara partur af leiknum."
Ívar Örn fékk að líta gula spjaldið í látunum.
„Þetta var pirringur og ég skil þetta mjög vel, ég hef verið í nákvæmlega sömu stöðu hinu megin á vellinum. Ég sýni þessum fullan skilning en ég er alltaf tilbúinn að bakka minn mann upp," sagði Ívar.