Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 25. júní 2023 17:23
Elvar Geir Magnússon
Hannes elskar þjálfaralífið í Þýskalandi - „Hér hef ég byggt upp minn feril“
Hannes í klefanum hjá Wacker Burghausen.
Hannes í klefanum hjá Wacker Burghausen.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Frá heimavelli Wacker Burghausen.
Frá heimavelli Wacker Burghausen.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Arnar Þór Viðarsson og Hannes Þ. Sigurðsson spjalla.
Arnar Þór Viðarsson og Hannes Þ. Sigurðsson spjalla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes á æfingasvæði Wacker Burghausen.
Hannes á æfingasvæði Wacker Burghausen.
Mynd: Wacker Burghausen
Hannes lék þrettán landsleiki.
Hannes lék þrettán landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Í leik með uppeldisfélagi sínu FH.
Í leik með uppeldisfélagi sínu FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þ. Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður í fótbolta, hefur fest niður rætur sem þjálfari í þýska boltanum. Hann hefur þjálfað í neðri deildum Þýskalands síðan 2018 og stýrir nú Wacker Burghausen sem spilar í D-deildinni.

Hann tók við Burghausen í apríl í fyrra og nú er hafið undirbúningstímabil fyrir hans annað heila tímabil með stjórnartaumana.

„Þetta er félag sem á sér ansi góða sögu, á síðustu 20 árum hefur það verið fimm ár í Bundesligu 2 (næst efstu deild) og átta ár í Bundesligu 3. Félagið er með frábæra aðstöðu og það er æðislegt að geta unnið sína vinnu þarna," segir Hannes sem var til viðtals í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

„Stærð félagsins er kannski ekki alveg í samræmi við stærð bæjarins. Félagið var stofnað af fyrirtæki sem heldur þessu svæði nokkurn veginn gangandi, áður fyrr var miklum pening dælt inn í það en það eru breyttir tímar. Félagið hefur þurft að sníða sér stakk eftir vexti hvað það varða. Það er ekki sama innspýting og áður."

Stuðningsmenn sem lesa stundum yfir hausamótunum á liðinu
Burghausen á mjög dygga stuðningsmenn sem láta vel í sér heyra. Tengslin milli þeirra og liðsins eru ansi mikil og eftir leiki mæta Hannes og leikmennirnir oft að stúkunni þar sem stuðningsmenn eru óhræddir við að segja sína skoðun.

„Þeir eru mjög góðir, þeir eru með okkur í blíðu og stríðu. Við þurfum að fara til þeirra eftir hvern einasta leik. Annað hvort fáum við hrós og fagnaðarlæti eða það er lesið yfir hausamótunum á mönnum. Þeir vilja hafa gaman og stundum er fókusinn ekki 100% á leiknum. Ég er í góðu bandi við þá og tala við þá, stundum er ég ekki sammála þeim og það getur verið í báðar áttir," segir Hannes.

„Einhvern tímann hraunuðu þeir yfir liðið og ég talaði svo við þá eftir það og sagði að þetta stæðist engan veginn. Svo stuttu seinna áttum við hrikalegan leik en þeir voru mjög jákvæðir. Ég botnaði ekkert í þeim. Þeir vilja auðvitað sjá að leikmenn séu að leggja sig fram, fagurfræðin er ekkert endilega í fyrsta sæti en ef menn leggja sig fram fyrir félagið þá eru þeir yfirleitt nokkuð sáttir."

Væri gaman að fá íslenskan leikmann einn daginn
Burghausen er með nokkra erlenda leikmenn en er Hannes ekkert að spá í að reyna að fá íslenskan leikmann?

„Það væri mjög skemmtilegt að gera það einn daginn. Það er hinsvegar mikið framboð af leikmönnum hér og launakostnaðurinn þarf ekki að vera eins hár og heima. Ef maður sér góðan leikmann heima þá er ekki alltaf raunhæft að draga hann hingað út," segir Hannes.

„Við erum með töluvert ungt lið og ég held að elsti leikmaðurinn minn sé þrítugur. Við erum með marga leikmenn á þessum háskóla- og jafnvel framhaldsskólaaldri. Við getum kannski ekki boðið upp á bestu launin en við getum boðið upp á margt annað, þá þurfum við að fá nákvæmlega réttu týpurnar sem eru tilbúnar í þannig verkefni."

„Þetta er frábær stökkpallur, leikmenn geta bætt sig mikið og félögin í deildunum fyrir ofan eru dugleg að horfa á okkar deild. Það er það sem selur. Ef við erum að tala um íslenska leikmenn þá jú það getur gengið en það eru allt aðrar forsendur launalega."

Vegferðin skýrari
Wacker Burghausen gekk ágætlega á síðasta tímabil en Hannes segir að línurnar séu skýrari fyrir komandi tímabil sem hefst eftir nokkrar vikur.

„Síðasta ár var lærdómsríkt. Ég tók við liði sem endaði í þriðja sæti og átti mjög sterkt tímabil. Þegar ég tek við missum við tíu leikmenn sem voru kannski hluti af fimmtán bestu leikmönnunum það tímabil. Við þurftum að fara í ákveðna vinnu við að byggja upp nýtt lið," segir Hannes en síðasta tímabil var nokkuð kaflaskipt hjá liðinu.

„Þetta er gríðarlega langt mót, þetta eru 38 leikir í deild. Við áttum fasa þar sem við vorum taplausir eftir tólf leiki í röð og svo áttum við líka meiðslakafla þar sem við töpuðum fjórum leikjum í röð. Þetta var ákveðinn rússíbani með lið sem við vorum í raun að smíða meðan á tímabilinu stóð. Þá kom ýmislegt í ljós og ég lærði kannski af þeim mistökum sem ég gerði. Stundum var ég að einblína á að bæta veikleika í stað þess að fókusera á þau gæði og það jákvæða sem við vorum."

„Ég var að vonast eftir því að það yrðu ekki eins miklar breytingar og í fyrra því það tekur á að breyta miklu í leikmannahópnum. Við þurftum að gera það í fyrra en nú er það frekar á okkar forsendum og vitum nákvæmlega hvaða leið við ætlum okkur að fara. Við losuðum okkur við eða misstum fjórtán leikmenn, sem er helvíti há tala. Þetta verður smá púsluspil til að byrja með en vegferðin er klárari fyrir þetta tímabil."

„Það er skýrt hvernig staðið verður að þessu og hvernig við ætlum að spila. Við prófuðum ýmislegt í fyrra og tímabilið fór mikið í það, skoða hvað gekk upp og hvað ekki. Þetta var ágætt, við enduðum í sjöunda sæti af tuttugu. Við vorum með þriðju bestu vörnina og fullt af jákvæðum punktum, við náðum frábærum úrslitum gegn bestu liðunum."

Ætlaði ekki í þjálfun en gat ekki slitið sig frá fótboltanum
Hannes kom víða við á leikmannaferlinum en nú er hann búinn að festa niður rótum í Þýskalandi og er alls ekkert að hugsa um að færa sig um set.

„Lífið er yndislegt. Ég kom víða við á mínum ferli og það er kannski erfitt að bera Norðurlöndin við eitthvað annað. Það er gott að vera þar, bæði á Íslandi og í Noregi og Svíþjóð. Eftir frekar langt ferðalag til Kasakstan og í gegnum Rússland þá finnst mér lífsgæðin hér í Þýskalandi vera frábær. Kúltúrinn hérna, náttúran og menningin. Það er frábært að vera hérna og ég get ekki kvartað," segir Hannes.

Hann prófaði margar ólíkar deildir á ferlinum og sankaði að sér mikilli reynslu. Hann segir að það hafi þó alls ekki legið beint við að fara út í þjálfun. Síður en svo.

„Það var akkúrat andstæðan og það hafði nokkuð að gera með minn feril. Ég var alltaf að taka punkta frá öllum þjálfurum en hafði samt engan áhuga á að fara í þjálfun. Það hafði kannski eitthvað með það að gera hvað ég lenti í mörgum meiðslum, ég var í ástar- hatursambandi við fótboltann. Oft á tíðum langaði mig að fara eins langt frá fótboltanum og ég gæti."

„Svo kom að því að ferillinn endaði og þá áttaði ég mig á því að ég væri ekki búinn með fótboltann. Ég gat ekki slitið mig frá þessu. Mér fannst það fínasta leið að verða þjálfari og ég fann að það væri það eina rétta. Það tók mig samt nokkra mánuði að átta mig á því. Þá fór ég að leiða hugann að því hvaða leið ég ætti að fara."

Hannes vonast til að skapa sér enn stærra nafn í þýska fótboltanum.

„Eins og staðan er núna er það eina rökrétta að vera hér áfram. Hér hef ég byggt upp minn feril. Það er oft rómantísk hugsun að koma heim og þjálfa þar eða annars staðar en ég er með minn feril hér. Ferillinn hefur gengið nokkurn veginn eins og ég vonaði og þá er bara að sýna þolinmæði, halda áfram og sjá hvert hann tekur mann," segir Hannes Þ. Sigurðsson.

Viðtalið í heild er í útvarpsþættinum en þar ræðir Hannes einnig um íslensku deildina, sem hann fylgist vel með, og landsliðið.
Útvarpsþátturinn - Hörður Björgvin, Besta deildin og Burghausen
Athugasemdir
banner
banner