banner
   mán 25. júlí 2022 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Potter biður fréttamenn um að sýna leikmönnum virðingu
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Graham Potter knattspyrnustjóri Brighton var spurður út í framtíð spænska varnarmannsins Marc Cucurella í dag.


Englandsmeistarar Manchester City eru að reyna að fá Cucurella í sínar raðir og hafnaði Brighton 30 milljón punda tilboði á dögunum. Talið er að Brighton vilji 50 milljónir fyrir vinstri bakvörðinn.

Potter tók ekki sérlega vel í spurninguna og virðist orðinn þreyttur á endalausum sögum um fótboltamenn sem gætu verið að skipta um félög. Hann segir að fréttamenn ættu að sýna leikmönnum þá virðingu að vera ekki að ræða um félagaskipti þeirra fyrr en eftir að samkomulag næst á milli allra aðila.

„Þetta er bara orðrómur, þetta er partur af leiknum. Það getur allt gerst þegar leikmannamarkaðurinn er opinn en það er mikilvægt að sýna leikmönnum virðingu. Það ber að virða að leikmenn eru manneskjur með feril, fjölskyldu og markmið, en á sama tíma áttum við okkur á því að svona orðrómar eru partur af leiknum," sagði Potter.

„Þess vegna hef ég ekkert um þetta mál að segja. Eina sem við í þjálfarateyminu hugsum um er að hjálpa leikmönnum að undirbúa sig fyrir næstu æfingu og næsta leik.

„Það skiptir ekki máli hvað ég segi í fjölmiðlum vegna þess að það er ekkert um málið að segja fyrr en félögin komast að samkomulagi um kaupverð og leikmaðurinn skrifar undir samning. Þangað til það gerist er óþarfi að tjá sig."

Brighton hefur verið að gera góða hluti undir stjórn Potter og endaði í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.


Athugasemdir
banner