
Grótta tók á móti Þrótti í 19. umferð Lengjudeildarinnar í kvöld þar sem Þróttarar þurftu stig til þess að koma sér úr fallsæti. Viðar Ari Jónsson, sem spáði í umferðina, hitti naglann á höfuðið með leikinn og spáði 2-2 en það voru einmitt lokatölur.
Lestu um leikinn: Grótta 2 - 2 Þróttur R.
„Lélegur fyrri hálfleikur hjá okkur, við vorum sloppy“ sagði Njörður Þórhallsson, leikmaður Þróttar, eftir leikinn.
„Við vorum að missa boltann á hræðilegum stöðum og töluðum ekki saman. En seinni, bara karakter að koma til baka og við hefðum alveg getað unnið 3-2 fannst mér“ hélt hann svo áfram en Þróttarar lágu í sókn í lok leiksins en náðu ekki að stela stigunum þremur.
„Við vorum alveg mjög svekktir í hálfleik og ætluðum að koma út og sýna hvað við getum og hefðum getað skorað fleiri“ segir hann svo, aðspurður hvort honum hafi fundist frammistaðan kaflaskipt.
Þróttarar eru í mikilli fallbaráttu þegar þrjár umferðir eru eftir en stigið í dag kom þeim úr fallsæti en þó bara á markatölu. Þeir eiga eftir að spila við Gríndavík, Leikni og Aftureldingu.
Viðtalið við Njörð má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.