Víkingur skrifaði nafn sitt í sögubækurnar í gær þegar liðið varð fyrst allra íslenskra liða til að vinna leik í lokakeppni í Evrópukeppni. Liðið vann Cercle Brugge 3-1 í Sambandsdeildinni á Kópavogsvelli.
Belgískir fjölmiðlar fóru hamförum í gær og gagnrýndu Cercle Brugge og aðstæðurnar á Kópavogsvelli. Miron Muslic, þjálfari belgíska liðsins, er undir mikilli pressu og hvíldi nokkra lykilmenn þar sem liðið þarf að vinna næsta deildarleik um helgina svo hann muni halda starfi sínu.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var spurður út í umræðuna í Belgíu í viðtali hjá Fótbolta.net fyrir stórleik helgarinnar gegn Breiðabliki.
„Þetta er alveg óþolandi. Þetta er óvirðing gagnvart leikmönnum liðsins, þetta er hópíþrótt, ekki bara ellefu menn og svo restin af liðinu. Ég veit ekki hvað vantaði marga leikmenn hjá okkur og svo stórir leikmenn á bekknum. Mér myndi aldrei detta í hug að kalla þetta A og B lið," sagði Arnar.
„Ég hugsa það þannig að ef það vantar stóra pósta þá er þeim mun skemmtilegra verkefni fyrir þjálfarana þó það sé ógeðslega leiðinlegt fyrir leikmennina sem vantar. Það reynir á þína hugmyndafræði og hvað þú stendur fyrir þegar það vantar leikmenn."
Hann hrósaði Muslic en skaut á belgísku blaðamennina.
„Ég tek það sérstaklega fram að þjálfari Belgana var til fyrirmyndar fyrir og eftir leik. Hann var mjög fagmannlegur. Þetta lýsir lúsershátt belgískra blaðamanna, ömurlegt í alla staði," sagði Arnar.