PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   fös 25. október 2024 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gömlu liðsfélagarnir andstæðingar í kveðjuleiknum - „Stórkostlegur ferill hjá stórkostlegri manneskju"
Ögmundur Kristinsson, Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason verða allir á Hlíðarenda á morgun.
Ögmundur Kristinsson, Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason verða allir á Hlíðarenda á morgun.
Mynd: Aðsend/AS
Vindurinn er að kveðja.
Vindurinn er að kveðja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á Hlíðarenda á morgun kveðja tveir fyrrum landsliðsmenn sviðið, þeir Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason eru að leggja skóna á hilluna eftir langa og farsæla ferla. Valsarinn Birkir og Skagamaðurinn Arnór léku saman á sínum tíma í Hammarby í Svíþjóð. Þeir voru einnig samherjar í landsliðinu og léku saman með Val tímabilin 2021 og 2022.

Birkir Már er sá leikmaður sem Arnór hefur leikið flesta leiki með á ferlinum, samkvæmt Transfermarkt léku þeir 125 leiki saman á ferlinum. Arnór er 36 ára og Birkir verður fertugur í næsta mánuði. Fótbolti.net ræddi við Arnór í vikunni og var hann spurður út í Birki.

„Erum við búnir að spila saman 125 leiki? Djöfull er það geðveikt! Það hafa verið algjör forréttindi að hafa fengið að deila vellinum með Birki í svona mörg skipti, í þremur mismunandi liðum. Ég kem til Hammarby þegar Birkir er þar og Ömmi (Ögmundur Kristinsson) líka. Við myndum saman hægri vænginn; hann í bakverðinum og ég á kantinum. Þetta voru tvö tímabil og við spiluðum alla leiki saman. Ég naut þess rosalega mikið að spila með Birki, þú vissir alltaf að hann væri kominn í 'overlappið' og vissir að hann var fyrstur til baka líka, geðveikt að spila með honum," segir Arnór.

„Stórkostlegur ferill hjá stórkostlegri manneskju. Það býr ekkert vont í manneskjunni Birki Má Sævarssyni, algjör öðlingur - hann og hans fjölskylda, geggjað fólk. Ég heyrði í honum í vikunni með þennan síðasta leik. Það verður rosalega gaman að fá að enda ferilinn með honum á sama velli, það verður minnisstætt."

Birkir er þekktur fyrir að vera stuðningsmaður Leeds og grjótharður Guns 'N Roses. Hann hlustar einnig mikið á þungarokk. Náði hann að smita Arnór í þeim efnum?

„Stutta svarið með Leeds er nei," sagði Arnór og hló. „Við fórum saman á Guns N' Roses tónleika sem var veisla, en þungarokkið er ekki minn tebolli."

Leikur Vals og ÍA hefst klukkan 16:15 og fer fram á N1-vellinum á Hlíðarenda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner