Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 26. janúar 2021 09:50
Elvar Geir Magnússon
„Man City mun vinna titilinn ef liðið sækir Diego Costa"
Telur að Diego Costa geti fært City titilinn.
Telur að Diego Costa geti fært City titilinn.
Mynd: Getty Images
Micah Richards.
Micah Richards.
Mynd: Getty Images
Kevin de Bruyne og Sergio Aguero.
Kevin de Bruyne og Sergio Aguero.
Mynd: Getty Images
Diego Costa er fáanlegur á frjálsri sölu.
Diego Costa er fáanlegur á frjálsri sölu.
Mynd: Getty Images
„Manchester City er þegar á fáránlega góðu skriði en ef félagið myndi kaupa Diego Costa núna þá er ég viss um að liðið myndi vinna ensku úrvalsdeildina," segir Micah Richards, fyrrum varnarmaður Manchester City og pistlahöfundur BBC.

Costa er fyrrum sóknarmaður Chelsea er fáanlegur á frjálsri sölu eftir að hann yfirgaf Atletico Madrid í desember.

„Costa er 32 ára og ég held því ekki fram að hann sé langtíma lausn fyrir City sóknarlega en af hverju ekki að semja við hann út tímabilið? Hann myndi gera meira en að reyta nokkrar fjaðrir og skapa vandræði fyrir varnarmenn andstæðingana, hann er reyndur markaskorari sem myndi færa Pep Guardiola öflugra plan B."

„Vissulega þyrfti að borga honum vel en hann gæti gert gæfumuninn á þessu tímabili og þá er það þess virði."

„Þegar ég vann titilinn með City 2012 vorum við með fjóra sóknarmenn sem voru á hátindinum; Sergio Aguero, Carlos Tevez, Edin Dzeko og Mario Balotelli. Þeir spiluðu allir stór hlutverk á mismunandi köflum tímabilsins. Í dag eru þeir vissulega enn með Aguero en það eru stór spurningamerki varðandi standið á honum og Gabriel Jesus sem einu varaskeifuna."

„Ég er hrifinn af Jesus en hann er ekki alltaf líklegur til að reka smiðshöggið, hann dregur sig oft aftar eða út á vænginn til að tengja saman spil. Ef City væri með leikmann sem vill alltaf koma sér fyrir aftan vörnina þá tel ég að liðið yrði ógnvekjandi. Costa gæti orðið sá sóknarmaður og hann getur skapað tækifæri fyrir liðsfélaga sína," segir Richards.



Cavani gott dæmi
„Ef þú vilt dæmi um áhrifin sem Costa gæti haft þá er hægt að skoða hvað Edinson Cavani hefur gert fyrir Manchester United á þessu tímabili. Cavani er 33 ára og er allt öðruvísi en Marcus Rashford, Anthony Martial og Mason Greenwood. En hann kemur með aðra hluti í sóknarleiknum og hann hefur þegar verið gulls ígildi í jöfnum leikjum. Aukaspyrnan sem hann vann gegn Liverpool í bikarnum og Bruno Fernandes skoraði sigurmarkið úr er gott dæmi."

Þegar Costa var hjá Chelsea skoraði hann 59 mörk í 120 leikjum og vann ensku úrvalsdeildina tvívegis.

Ekki hægt að reiða sig á Aguero
„Í fullkomnum heimi myndi City leita til Aguero um að framkvæma allt sem Costa getur gert. Hann er með ótrúlegan feril og hefur í fortíðinni alltaf skilað sínu. En argentínski sóknarmaðurinn hefur átt erfitt ár vegna meiðsla og hefur varla spilað á þessu tímabili. Það eru tólf mánuðir síðan hann skoraði síðasta úrvalsdeildarmark og hefur aðeins byrjað einn deildarleik á þessu tímabili."

Aguero meiddist á hné í júní og fór í aðgerð sem hélt honum utan vallar til 17. október. Hann byrjaði tvo leiki í þeim mánuði en hefur aðeins komið við sögu sem varamaður síðan 24. október. Samtals á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í níu leikjum og skorað tvö mörk, bæði í Meistaradeildinni.

„Ég þekki það af reynslunni að þú jafnar þig aldrei fullkomlega af svona meiðslum. Þú þarft alltaf að vera að huga að þér og hvíla á réttum tímum. En þú lagar þetta ekki algjörlega. Hann greindist svo með Covid-19 og við vitum ekki hversu stórt hlutverk hann getur spilað á síðustu mánuðum tímabilsins," segir Richards.

„Ég er ekki að afskrifa Aguero því ég veit nákvæmlega hversu góður hann er. Ég er bara að segja að núna þarf City annan kost í sóknarleikinn."

City hefur leikið frábærlega að undanförnu og unnið tíu leiki í röð.

„City er svo nálægt því að vera án veikleika. Guardiola hefur gert vörnina öfluga og miðjan stýrir ferðinni þrátt fyrir að Kevin de Bruyne verði á meiðslalistanum næstu vikur. Sóknarleikurinn er eina áhyggjuefnið, einn alvöru sóknarmaður er það sem vantar og ég trúi því ekki að Guardiola sé ósammála," segir Micah Richards.
Athugasemdir
banner
banner