þri 26. janúar 2021 10:15
Elvar Geir Magnússon
Tuchel vill stjórna öllu
Thomas Tuchel er að fara að taka við Chelsea.
Thomas Tuchel er að fara að taka við Chelsea.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Á æfingu með PSG.
Á æfingu með PSG.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Chelsea er að ganga frá ráðningu á Thomas Tuchel sem nýjum stjóra eftir að Frank Lampard var rekinn í gær. Æðstu menn Chelsea vonast til að Tuchel, sem er mjög ólíkur Lampard, muni ná því besta út úr leikmönnum Lundúnaliðsins.

„Tuchel er einn flóknasti persónuleiki í Evrópufótboltanum. Þessi 47 ára gamli stjóri er með stjórnunaráráttu en einnig þekktur sem taktískur og aðferðafræðilegur hugsuður. Hann var rekinn rekinn frá Paris St-Germain í lok desember eftir mánuði af deilum milli hans og íþróttastjórans Leonardo," segir Constantin Eckner, sérfræðingur í þýskum fótbolta.

Tuchel getur verið erfiður í samskiptum við stjórnendur eins og sést hefur í gegnum tíðina. En hann hefur í nokkurn tíma viljað spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni eins og Jurgen Klopp og Pep Guardiola, tveir stjórar sem hann lítur upp til, hafa gert.

Tuchel stýrði Mainz áður en hann tók við Borussia Dortmund og svo franska stórliðinu PSG.

„Einhverjir leikmenn Chelsea eru sagðir hafa kvartað yfir skorti á taktískum leiðbeiningum frá Lampard. Tuchel er á hinn bóginn þekktur fyrir að gefa liðum sínum ítarleg fyrirmæli," segir Eckner.

„Þjóðverjinn mun ekki hika við að koma sínum hugmyndum á framfæri, hvort sem það er í taktík eða annars staðar. Hjá fyrrum félögum þá skipulagði hann mataræði leikmanna, fylgdist með svefnmynstri þeirra, endurskoðaði greiningardeildir, breytti njósnakerfinu og kom að endurbótum á aðstöðu."

„Vilji hans til að stjórna öllu hafa skapað honum óvini. Á tíma sínum hjá Dortmund þá bannaði hann yfirnjósnarann Sven Mislintat frá æfingasvæðinu vegna þess að þeir voru ekki sammála um hlutina."

Eckner segir að þar sem Tuchel taki nú við á miðju tímabili hafi hann ekki tíma til að gjörbreyta hlutunum hjá Chelsea en næsta sumar gæti orðið fyrsta prófraunin á samband hans við stjórnendur félagsins.



Harry Redknapp efast um Tuchel
Gary Neville sagði á Sky Sports að hann væri spenntur fyrir því að fá Tuchel í ensku úrvalsdeildina. Hann væri enn einn toppstjórinn sem væri að koma í enska boltann.

Harry Redknapp, sem er frændi Frank Lampard, getur þó ekki tekið undir þessi orð Neville.

„Neville sagði að það væri frábær stjóri að koma inn í deildina. Hvað gerir hann að frábærum stjóra? Að vinna titla með PSG í Frakklandi gerir þig ekki að frábærum stjóra. Hvað sannar það? Það er skylda að vinna titilinn í Frakklandi þegar þú ert að stýra PSG. Aðeins tíminn mun leiða í ljós hversu góður stjóri hann er," segir Redknapp.

Chelsea á leik gegn Úlfunum annað kvöld en ekki er vitað hvort Chelsea geti gengið frá ráðningu á Tuchel fyrir þann leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner