Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 26. mars 2023 09:20
Ívan Guðjón Baldursson
Nýjar markmannsreglur útaf hegðun Martínez
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Alþjóða knattspyrnusamtökin IFAB hafa tilkynnt reglubreytingu sem tekur gildi í sumar. Reglubreytingin snýr að hegðun markvarða þegar kemur að vítaspyrnum.


Ákveðið var að breyta reglunum eftir hegðun Emiliano Martínez á HM í Katar. Látbragð hans var gagnrýnt víða um heim er hann reyndi að taka andstæðinga sína út af laginu í vítaspyrnukeppnum gegn Hollandi og Frakklandi. Martínez var hetjan í bæði skiptin og stóð Argentína uppi sem sigurvegari á HM.

Martinez fékk til að mynda gult spjald fyrir athæfi sitt í úrslitaleiknum gegn Frakklandi, þar sem hann henti meðal annars boltanum í burt frá Aurelien Tchouameni í aðdraganda spyrnu hans. Tchouameni skaut svo framhjá.

Heimsmeistarinn mun ekki fá að gera þetta aftur án þess að vera refsað fyrir það þar sem nýju reglurnar segja skýrt að markvörður má ekki sýna spyrnumanni vanvirðingu í aðdraganda vítaspyrnu.

„Markvörður verður að standa á marklínunni og snúa að spyrnumanni í aðdraganda vítaspyrnu, án þess að snerta markstangir, markslá eða netið þar til spyrnt er í boltann. Markvörðurinn má ekki haga sér á neinn hátt sem getur truflað athygli spyrnumanns, til dæmis með því að tefja vítaspyrnuna eða með því að snerta markstangir, slá eða net," segir meðal annars í nýrri reglugerð.

Mike Maignan, markvörður AC Milan og franska landsliðsins, gerði grín að þessum nýju reglum með færslu á Twitter. Þar segir hann frá yfirvofandi reglubreytingu sem tekur gildi árið 2026. „Markvörður þarf að snúa með bakið að spyrnumanni. Ef vítaspyrnan er varin, fær andstæðingurinn óbeina aukaspyrnu."

Maignan fékk mikil viðbrögð á þessa færslu þar sem margir eru sammála honum um að þessi nýja reglugerð sé ekki fótboltanum til framdráttar.

Ian Wright, goðsögn hjá Arsenal, er meðal þeirra sem er ósáttur með nýju reglugerðina. „Hlægilegt," skrifaði hann til að tjá sig um breytinguna á Twitter.

Emiliano Martinez var sjálfur spurður út í reglubreytinguna en honum virðist vera nokkuð sama. „Hver veit hvað gerist í framtíðinni? Kannski mun ég ekki þurfa að verja vítaspyrnu næstu 20 árin. Sem betur fer tókst mér að verja vítaspyrnurnar og hjálpa liðinu mínu að vinna í Copa America og á HM en við vitum að reglur breytast og við fótboltamenn verðum að þróast með reglunum. Það er ekkert vandamál."


Athugasemdir
banner
banner