„Ég er búinn að vera nokkuð þægilegur yfir þessum leik, veit ekki hvort ég sé að vanmeta Úkraínumenn en ég er ekkert voðalega smeykur við þetta. Það er gott 'vibe' í borginni, gott stand á liðinu og þetta er bara einn leikur til að koma okkur á EM. Menn fara bara 'all-in'. Ég er bara bjartur," sagði Jóhann D Bianco eða Joey Drummer, einn af forsprökkum Tólfunnar, við Fótbolta.net á leikdegi í Wroclaw.
Drummsen, eins og stendur aftan á treyjunni, segir ekkert skemmtilegra en að horfa á íslenska landsliðið.
Drummsen, eins og stendur aftan á treyjunni, segir ekkert skemmtilegra en að horfa á íslenska landsliðið.
„Besta stund sem ég hef upplifað persónulega var þessi mánuður sem við eyddum í Frakklandi, það var sturlað. Allir Íslendingar eiga skilið að upplifa svona minningar allavega einu sinni á lífsleiðinni. Við ætlum að reyna allt sem við getum til að koma öllum Íslendingum á þetta geggjaða EM í Þýskalandi - gera alvöru EM sumar."
Allt er klárt fyrir leikinn í kvöld og er Joey að vinna í því að koma sér upp í 12 á skalanum 1-10.
Joey spáir 2-1 sigri Íslands; Alfreð Finnbogason og Albert Guðmundsson með mörkin. „Ekta leikur fyrir Finnbogason að koma og loka þessu drasli. Drullum okkur á EM og þá get ég lagt kjuðana á hilluna og sagt þetta gott."
Íþróttaguðirnir hafa verið góðir við trommarann síðustu daga, sigrar hjá Keflavík í körfunni, Man Utd lagði Liverpool og Ísland vann Ísrael. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst. Joey nefnir þar einnig Heimi Hallgrímsson og þýska stuðningsmenn íslenska landsliðsins sem mæta á leikinn í kvöld.
Athugasemdir