Á leið í sitt sjöunda tímabil með Breiðabliki. Hann er uppalinn hjá félaginu, fór út árið 2013 til AZ í Hollandi og var svo hjá Värnamo í hálft ár áður en hann sneri heim fyrir tímabilið 2019.
Það styttist í að veislan fari af stað, sjálft Íslandsmótið. Á sunnudag fer fram leikur Breiðabliks og KA í Meistarakeppni KSÍ og um aðra helgi fer 1. umferð Besta deild karla af stað.
Breiðablik er að undirbúa sig fyrir komandi átök og ræddi Viktor Karl Einarsson, leikmaður liðsins, við Fótbolta.net í dag. Hann hefur glímt við meiðsli hluta af undirbúningstímabilinu, en er orðinn 100% heill í dag og spilaði gegn FH í gær.
Breiðablik er að undirbúa sig fyrir komandi átök og ræddi Viktor Karl Einarsson, leikmaður liðsins, við Fótbolta.net í dag. Hann hefur glímt við meiðsli hluta af undirbúningstímabilinu, en er orðinn 100% heill í dag og spilaði gegn FH í gær.
„Ég meiddist aðeins á undirbúningstímabilinu í kálfanum, það var tekin ákvörðun að fara ekkert of geyst af stað. Ég var kominn í 100% æfingastand fyrir síðustu leikina fyrir æfingaferð og svo var ég 100% alla æfingaferðina og er í toppstandi núna. Við tókum bara ákvörðun þegar ég var að koma til baka að taka enga sénsa," segir Viktor Karl.
Breiðablik mætir Aftureldingu 5. apríl í opnunarleik Bestu deildarinnar, en fyrst er leikur gegn KA.
„Þetta leggst mjög vel í mig, get ekki beðið. Það er alltaf jafnmikil spenna fyrir fyrsta leik. Það er geggjaður leikur núna á sunnudaginn á móti KA, leikur sem maður horfir í til að koma með smá yfirlýsingu, ná alvöru frammistöðu og finna að allir séu klárir. Það verður mjög spennandi leikur. Svo verður geggjaður leikur á móti Aftureldingu helgina eftir."
Nýliðar Aftureldingar koma í heimsókn á Kópavogsvöll í fyrsta leik. Getur verið snúið að mæta nýliðum?
„Það getur alveg verið snúið, Afturelding er með frábært lið. Við spiluðum á móti þeim í janúar, það er mjög flott lið, vel þjálfað og þeir verða mjög erfiðir held ég. Við erum með reynslu að mæta nýliðum; mættum Gróttu 2020, vonandi getum við nýtt þá reynslu eitthvað. En það er alltaf snúið að mæta nýliðum."
Í leikmannahópi Aftureldingar er Oliver Sigurjónsson sem samdi við Aftureldingu í vetur eftir að hafa leikið með Breiðabliki allan sinn feril á Íslandi. Viktor Karl og Oliver voru samherjar síðustu fimm tímabil. Hvernig heldur þú að það verði að mæta honum?
„Það verður bara hrikalega gaman held ég, hann er fyrst og fremst frábær leikmaður og líka góður vinur minn. Það verður gaman að mæta honum á miðjunni, það er klárt."
Hvernig metur þú nýju leikmennina sem komið hafa inn í leikmannahópinn í vetur?
„Þeir hafa komið frábærlega inn í hlutina hjá okkur, mér hefur fundist þeir allir hafa aðlagast mjög hratt og örugglega á undirbúningstímabilinu og líta mjög vel út," segir Viktor Karl.
Athugasemdir