Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar R., var ánægður með framlag liðsins í 2-0 tapinu fyrir Val í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 0 Þróttur R.
Þróttarar voru vel inn í leiknum allan tímann og sýndu að þær gátu bitið frá sér.
Bæði mörkin sem liðið fékk á sig komu eftir hornspyrnur. Nik segir að liðið hafi mögulega átt að fá aukaspyrnu í aðdraganda fyrsta marksins.
„Mér fannst þetta mjög jafn leikur. Ég gæti ekki verið stoltari af stelpunum í kvöld. Flest ár höfum við komið hingað og það er yfirleitt bara eitt á lið á vellinum en þær gáfu allt í þetta og við fengum tvö mörk á okkur úr föstum leikatriðum."
„Við hefðum mögulega átt að fá aukaspyrnu í fyrra markinu. Dani komst fyrir framan og Arna keyrir yfir hana en Íris hélt okkur svo inn í leiknum í síðari hálfleik með mögnuðum vörslum," sagði Nik við Fótbolta.net.
Hann segir að það eina sem þurfi í raun og veru að bæta í leik þeirra eru ákvarðanatökur á síðasta þriðjungnum.
„Við vorum góðar á fyrstu tveimur hlutum vallarins en við vorum í veseni á síðasta þriðjungnum vantaði úrslitasendingu og hlaupin en Dani og Freyja eru nýjar í þessari deild. Þetta er eitt af því sem við þurfum að læra af og bæta," sagði hann ennfremur en viðtalið er í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir