Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 26. maí 2022 19:30
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson
Enska uppgjörið - Magnús Ingvason svarar spurningum
Magnús Ingvason ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Guðjónsdóttur á Etihad.
Magnús Ingvason ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Guðjónsdóttur á Etihad.
Mynd: Aðsend
Besti stjórinn.
Besti stjórinn.
Mynd: Getty Images
Mestu vonbrigðin, Everton.
Mestu vonbrigðin, Everton.
Mynd: Getty Images
Brentford kom mest á óvart.
Brentford kom mest á óvart.
Mynd: EPA
Raheem Sterling skoraði flottasta markið.
Raheem Sterling skoraði flottasta markið.
Mynd: EPA
Dómgæslan var misjöfn en VAR batnaði milli ára.
Dómgæslan var misjöfn en VAR batnaði milli ára.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net gerir upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni þessa vikuna, leitað verður til sparkspekinga til að svara nokkrum spurningum um tímabilið sem er að baki og tímabilið sem framundan er. Sparkspekingur dagsins er Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, hann svarar hér nokkrum laufléttum og skemmtilegum spurningum.

Besti leikmaðurinn? Ég er sammála flestum knattspyrnuspekingum og segi Kevin De Bruyne. Hann var frábær flesta leiki City í vetur. Foden, Kane, Salah og Son koma þar á eftir.

Besti stjórinn? Pep Guardiola er kóngurinn. Klopp prinsinn. Þar á eftir kemur t.d. David Moyes sem gerði fína hluti með West Ham og sömuleiðis Thomas Frank með Brentford.

Flottasta markið? Fimmta markið sem Sterling skoraði eftir glæsilegan undirbúning Grealish og Foden á móti Newcastle var geggjað. Hvernig þeir sundurspiluðu vörn Newcastle með flottum sendingum og hælspyrnu var unun á að horfa. Svo náttúrulega síðasta mark City á tímabilinu sem færði okkur fjórða titilinn á síðustu fimm árum. Það mark var ótrúlega „flott“ í ákveðnum skilningi.

Skemmtilegasti leikurinn? Það hlýtur að vera leikur City og Liverpool í apríl, en ég var þá á vellinum. Gríðarleg stemning og stuð og það var skrifað í skýin að leikurinn myndi fara jafntefli. Svo var síðasti leikurinn við Aston Villa skemmtilegur síðustu 15 mínúturnar. City hefur einstakt lag á að fara erfiðu leiðina.

Skondnasta/skemmtilegasta atvikið? Man nú ekki eftir einhverju einu skondnu atviki, en skemmtilegasta atvikið er sannarlega sigurmark Gündogan gegn Aston Villa. Skemmtanagildi þess er algjörlega óborganlegt, ef hægt er að segja svo.

Vanmetnasti leikmaðurinn? Það má segja að sumu leyti sé Úkraínumaðurinn Zinchenko vanmetinn leikmaður. Hann er alla jafna að leika við hlið leikmanna sem eru annað hvort lykilmenn í fremstu landsliðum í heimi eða voru keyptir fyrir talsverðar upphæðir. Zinchenko lætur það ekkert á sig fá og er stundum í byrjunarliðinu eða kemur inn á og stendur sig vel. Hann er kannski ekki eins góður bakvörður varnarlega og Cancelo og Walker, en bætir það upp með gríðargóðri sendingargetu. Duglegur leikmaður með hjartað á réttum stað.

Hvaða lið olli mestum vonbrigðum í vetur? Það hlýtur að vera Everton. Greinilega margt að í þeim klúbbi. Svo kemur líklega Manchester United þar á eftir með alla sína gæðaleikmenn. Rétt skríða í Evrópudeildina. Svo eru nokkur önnur lið sem maður kannski bjóst við að gætu meira. Inni í þeim pakka eru t.d. Wolves, Southampton og Leeds. Lið sem geta á góðum degi unnið flest lið, en tapa illa þess á milli. Sólardagar þeirra voru fáir og langt á milli þeirra.

Hvaða lið kom mest á óvart í vetur? Brentford hlýtur að vera þar ofarlega á lista. Margir spekingar vissu eiginlega ekki um tilvist þess félags þegar það kom upp og því var snarlega spáð falli. Flott þessi Skandinavíska tenging og frábært að sjá lið með engar stjörnur standa sig svona vel – kannski fyrir utan Eriksen sem kom á miðju tímabili. Síðan gerði Brighton ágæta hluti, West Ham sömuleiðis og svo Newcastle eftir áramót.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur? Það er erfitt að segja. Ég vil nú taka City leikmennina út fyrir sviga. Vissulega vildi maður fá meira úr nokkrum leikmönnum sem áttu kannski ekki alltaf sína bestu leiki, en voru svo frábærir í öðrum leikjum. Af handahófi úr öðrum liðum mætti nefna Everton leikmennina Dele Alli og Donny Van de Beek sem áttu að gera fína hluti fyrir liðið en komust ekki í það, þrátt fyrir dapurt gengi. Svo veit maður ekki hvort maður ætti að nefna Ronaldo í Manchester United. Hann var slakur í mörgum leikjum, en skoraði þó sinn skammt af mörkum. Hann var þó sannarlega ekki sá hvalreki sem menn bjuggust við í upphafi tímabils þegar talað var um að United yrði nánast ósigrandi með hann innanborðs.

Hvaða lið mun styrkja sig mest í sumar? Haaland er kominn til City fyrir 50 milljón pund og það eru kjarakaup og ætti að vera góð styrking. Kannski verður einn annar leikmaður keyptur í stöðu Fernandino. Hvað varðar önnur lið, þá má búast við að sterkustu lið deildarinnar opni veskið og kaupi einhver stór nöfn. Arsenal þarf herslumuninn til þess að vera á meðal þeirra bestu og sömuleiðis Tottenham. United skilst manni að ætli að hreinsa vel út og kaupa duglega inn í staðinn. Það er þó hætt við að þeir þurfi að borga 10 til 20% aukalega fyrir leikmenn þar sem þeir verða ekki í Meistaradeildinni. Bestu leikmenn heims vilja vera þar. Síðast en ekki síst má búast við að Liverpool og Chelsea bæti einum eða tveimur gæðaleikmönnum við sinn hóp.

Hvernig fannst þér dómgæslan í vetur? Dómgæslan var misjöfn. Í sumum leikjum var hún frábær en í öðrum leikjum ekki. Stærsta málið er að VAR batnaði til muna frá tímabilinu á undan þegar allt var einhvern veginn í skrúfunni. Bæði voru menn fljótari að úrskurða vafaatriði og svo fannst mér minna um VAR dómgæslu. Það er samt alltaf dálítið sérstakt að menn geti ekki fagnað mörkum fyrr en búið er að skoða í VAR. Það tekur dálitla gleði úr leiknum.

Þú mátt velja einn leikmann úr liðunum sem féllu og setja í liðið þitt, hvaða leikmaður yrði fyrir valinu? Jóhann Berg Guðmundsson úr Burnley. Væri flott hjá honum að enda ferilinn með nokkra bikara. Mögulega Moussa Sissoko úr Watford. Gæti verið svona varamaður á miðjunni. Úr Norwich myndi ég velja Angus Gunn, markmann sem var varamarkvörður City 2017-2018. Hann væri eflaust ánægður með að komast aftur heim.
Athugasemdir
banner
banner