
„Ótrúlega svekkjandi, sérstaklega þegar við erum svona nálægt því," sagði Birkir Bjarnason, kantmaður Íslands, eftir að við duttum úr leik á Heimsmeistaramótinu í kvöld. Ísland tapaði fyrir Króatíu en þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum var Ísland einu marki frá því að komast í 16-liða úrslitin.
„Við fengum ótrúlega mikið af stórum tækifærum til að skora. Ég fékk nokkur og átti að skora."
Birkir fékk olnbogaskot beint í nefið frá leikmanni Króatíu í byrjun leiks en hélt áfram. Honum var hrósað á samfélagsmiðlum eftir leik fyrir að halda áfram.
„Það var bara mikið blóð, það þurfti að reyna að stoppa það," sagði Birkir en það blæddi mikið úr nefi hans.
Aðspurður segist Birkir aldrei hafa vitað stöðuna í hinum leik riðilsins, leik Argentínu og Nígeríu. Sá leikur fór þannig að Íslandi hefði dugað eins marks sigur gegn Króatíu til að fara áfram.
„Ég heyrði aldrei neitt, við vissum að við þyrftum að vinna. Hinn leikurinn skipti ekki miklu máli þegar við vorum ekki með sigurinn í höndunum."
„Mér fannst leikur okkar hrikalega góður, við höfum aldrei skapað eins mörg færi gegn Króatíu og héldum þeim ágætlega niðri líka. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þetta var gríðarlega sterkur riðill. Við hefðum átt að gera betur gegn Nígeríu, en ég er stoltur að hafa verið hérna og gert okkar - gríðarlega svekkjandi líka."
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir