Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 26. október 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pjanic um Sarri: Hann treysti ekki leikmönnum
Mynd: Getty Images
Miralem Pjanic var lykilmaður í liði Juventus á fjórum árum hjá félaginu en var svo seldur til Barcelona í skiptum fyrir Arthur í sumar.

Hinn þrítugi Pjanic lék undir stjórn Maurizio Sarri á síðustu leiktíð og sagði frá því að það hafi ekki ríkt nægilega mikið traust á milli þjálfarans og leikmannahópsins.

Pjanic náði aldrei að kyngja ummælum Sarri í fjölmiðlum þar sem hann ýjaði að því að það væru leikmenn í hópi Juventus sem væru að vinna gegn honum með því að leggja sig ekki fram.

„Það sem veldur mér enn vonbrigðum í dag, þegar ég hugsa til baka, er hvernig Sarri treysti ekki leikmönnum. Það truflaði mig hvernig hann dæmdi menn, þegar ég veit fyrir víst að allir í þessum klefa voru tilbúnir til að leggja allt í sölurnar fyrir félagið og liðsfélagana," sagði Pjanic við Tuttosport.

„Kannski semur þér illa við einn eða tvo leikmenn en það á ekki að hafa nein áhrif. Allir leikmennirnir þrá sigur sama hvað, þetta er hópur af algjörum atvinnumönnum með óbilandi metnað.

„Ég er ekki sáttur með að þjálfarinn hafi farið að véfengja þessar staðreyndir."


Juve varð Ítalíumeistari níunda árið í röð en tapaði fyrir Napoli í úrslitaleik bikarsins og var slegið úr 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar af Lyon, eftir að hafa rúllað yfir erfiðan riðil með Atletico Madrid, Bayer Leverkusen og Lokomotiv Moskvu.

„Enginn er að efast um hæfileika Sarri sem þjálfara, en þetta var stórt vandamál. Í enda dagsins urðum við Ítalíumeistarar aftur, því má aldrei taka sem gefnu."

Sarri var rekinn frá Juventus eftir tímabilið. Andrea Pirlo tók við í sumar en hefur ekki farið sérlega vel af stað.
Athugasemdir
banner
banner
banner