„Þetta var ágætur leikur. Ég held að bæði lið hafi átt dálítið inni í dag en við komum með það í huga að fá þrjú stig og skora mörk og við gerðum það svo við erum sáttar með megnið af þessu,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, eftir öruggan 4-1 útisigur á FH fyrr í dag. Liðið heldur því áfram á sigurbraut. Hefur unnið fyrstu fimm leiki Íslandsmótsins.
Lestu um leikinn: FH 1 - 4 Þór/KA
Þór/KA byrjaði leikinn vel og komst yfir snemma en FH tókst svo að vinna sig inn í leikinn sem var jafn lengst af í fyrri hálfleik.
„Það var eins og við næðum ekki að tengja. Næðum ekki að halda í boltann. Við vorum of mikið að senda í fyrsta hlaup og vorum of snöggar á okkur. Í seinni hálfleik stilltum við okkur betur saman. Fórum að halda boltanum aftur og þá náðum við að setja mörk,“ sagði fyrirliðinn en í síðari hálfleik voru yfirburðir Þórs/KA miklir.
„Við í Þór/KA höfum aldrei átt auðvelt með að koma hingað og það er rosalega gott að vera búnar með leikinn hér.“
Það vakti athygli að markvörðurinn Johanna Henriksson var komin í markið hjá Þór/KA en hún kom til liðsins á dögunum. Johanna gat lítið gert í markinu sem FH skoraði og stóð sig heilt yfir vel í dag. Sandra María segir hana vera mikinn karakter sem styrkir leikmannahóp liðsins.
„Þetta er rosalega skemmtilegur leikmaður. Stór karakter. Hress og skemmtileg í liðinu. Ég held að hún eigi eftir að reynast okkur vel. Hún er lágvaxin eins og flestir taka líklega eftir. Það er það fyrsta sem að fólk sér en hún leynir á sér. Er með gríðarlega góðan stökkkraft og góðar vörslur.“
Nánar er rætt við Söndru Maríu í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























