Gary Neville, fyrrverandi samherji Cristiano Ronaldo, segir að leikmaðurinn muni fara í eitthvað stórlið í Evrópu en Manchester United rifti samningnum hans á dögunum.
Ronaldo skaut á Erik ten Hag, Gary Neville, Glazers, Ralf Rangnick og fleiri í viðtalinu fræga við Piers Morgan á dögunum og í kjölfarið skyldu leiðir hans og Manchester United.
Ronaldo er sagður vera með risa tilboð frá Sádí-Arabíu en Neville segir að Ronaldo eigi ennþá fjóra til fimm góða mánuði eftir.
„Ég held að Ronaldo leitist eftir að komast í stórlið í Evrópu á fjögurra til fimm mánaða samning. Hann getur komið inn og gert öfluga hluti á síðari hluta tímabils," sagði Gary.
„Hann ætti að stefna að þessu, vera í Meistaradeildinni, spila ennþá á toppnum og sanna það að það sem gerðist hjá Manchester United var ekki rétt."
„Ég held að hann hafi í sér fjóra til fimm góða mánuði og að hann muni geta skorað 15-20 mörk eftir áramót. Þá munu allir stuðningsmenn Man Utd segja: Afhverju héldum við honum ekki?"
Ronaldo skoraði gegn Ghana í fyrsta leik Portúgals á HM en liðið mætir Úrúgvæ annað kvöld.